Beint í efni

Haustfundir, atkvæðagreiðsla og endurskoðun búvörusamninga

10.11.2018

Nú er öllum 14 haustfundum Landssambands kúabænda lokið þetta árið. Voru þeir vel sóttir og góðar umræður sköpuðust um þau mál sem eru efst á blaði hjá okkur kúabændum um þessar mundir. Líkt og flestir þekkja þá var haustfundum sleppt á síðasta ári en ég tel óhætt að segja að það verði ekki gert aftur í bráð. Þessir fundir eru gríðarlega mikilvægir fyrir félagsskapinn sem og starfsemi LK, okkar sameiginlega hagsmunafélags. Fundirnir veita okkur vettvang til að kynna stöðu verkefna, skiptast á skoðunum og fyrir stjórnarmeðlimi og framkvæmdastjóra að heyra af helstu hugðarefnum og áskorunum kúabænda á hverju svæði fyrir sig. Það er ómetanlegt.

Án þess að draga úr mikilvægi annarra atriða sem rædd voru á fundunum er óhætt að segja að umræður um endurskoðun búvörusamninga og atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis hafi vegið hvað þyngst, enda mál sem hafa mikil áhrif á starfsumhverfi okkar til framtíðar. Skiptar skoðanir eru meðal kúabænda um hvaða leið sé best að fara í þessum málum, hvort kvótinn eigi að fara eða vera, og þá með hvaða hætti viðskiptum skal háttað.

Mikilvægast að kerfið virki

Það er öllum ljóst að það viðskiptamódel sem nú er með greiðslumark -innlausn ríkisins- hefur ekki virkað sem skildi. Kvótamarkaðurinn sem var í gildi fyrir 1. janúar 2017 var heldur ekki gallalaus. Það þýðir ekki að hvort kerfið um sig sé ónothæft, það þarf einfaldlega að sníða af þeim gallana. Fari atkvæðagreiðslan á þann hátt að bændur kjósa að halda í kvótann er það sameiginlegt verkefni okkar að hafa gott kerfi í kringum framleiðslustýringuna, kerfi sem virkar. Liður í undirbúningi fyrir atkvæðagreiðsluna er greiningarvinna á mismunandi viðskiptamódelum með greiðslumark, kostum þeirra og göllum og hvaða leið hentar best fyrir greinina hér á landi, bæði út frá hagfræðilegum og samfélagslegum sjónarmiðum. Sömdu LK og Bændasamtök Íslands við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri um að vinna þessa greiningu og eru áætluð skil nú í lok nóvembermánaðar. Í kjölfarið verður kynnt fyrir bændum hvað það þýðir að kjósa kvótakerfið áfram og hvað það þýðir að kjósa kvótakerfið af. LK hefur lagt áherslu á að atkvæðagreiðslan muni eiga sér stað sem allra fyrst á nýju ári en ekki er komin lokadagsetning á það hvenær hún verður framkvæmd.

Nokkrum sinnum hafa komið upp umræður um annars konar form á framleiðslustýringu og stjórn LK stundum verið gagnrýnd fyrir að skoða ekki aðrar leiðir en framleiðslustýringu með greiðslumarki. Það er hins vegar svo að í þeim búvörusamningum sem ritað var undir haustið 2016 og gilda út árið 2026, er gert ráð fyrir að kvótinn verði afnuminn og þar eru fjármunir sem eru eyrnamerktir í verkefni sem snúa að framleiðslujafnvægi. Gert er ráð fyrir að þeim fjármunum sé varið í verkefni á borð við eflingu á markaðsfærslu nautgripaafurða, uppbætur fyrir slátrun kálfa og kúa, tilfærslu í aðra framleiðslu á kúabúum og tímabundnar býlisgreiðslur óháðar framleiðslu, ef  bregðast þarf við breytingum í framboði og eftirspurn á markaði. Fjármagn þessa liðar nemur þó ekki nema 92-99 milljónum króna ár hvert og ljóst að slíkir fjármunir munu duga skammt ef nýta á þá til stýringar á framleiðslunni en framleiðsluvirði mjólkurframleiðslu á síðasta ári var 18,8 milljarðar á grunnverði (þ.e. að meðtöldum vörustyrkjum en frátöldum vörusköttum). Er það í höndum framkvæmdanefndar búvörusamninga að taka ákvarðanir um ráðstöfun þessa liðar hverju sinni sem og hvort nýta eigi heimild til að færa allt að 20% af upphæð milli einstakra liða samningsins, öðrum en greiðslum út á greiðslumark. Verði kvótinn kosinn af er þetta sú framleiðslustýring sem felst í samningunum sjálfum. Afurðastöð sem tekur á móti að minnsta kosti 80% mjólkur yrði áfram skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt en lágmarksverð til bænda yrði ekki lengur til staðar. Þannig væri hluti framleiðslustýringar kominn í hendur iðnaðarins umfram það sem hefur verið með innvigtunargjaldinu. Ljóst er að verð til bænda myndi lækka á hvern lítra eftir því sem framleitt er meira, hvort sem um er að ræða opinberar greiðslur eða verð frá afurðastöð.

Mikilvæg samstaða

Kvóti í mjólkurframleiðslu hefur verið og verður örugglega áfram ákveðið þrætuepli í samfélaginu. Það er hins vegar von mín að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði virt, á hvorn veginn sem hún fer. Við getum verið missátt við útkomuna en með henni fáum við loks lýðræðislega niðurstöðu í þetta mál.

Samstaða er líklega eitt það verðmætasta sem við bændur getum skapað meðal okkar og það er kúnst að halda henni þrátt fyrir að vera ósammála um einstaka mál. En það er svo ótalmargt fleira sem sameinar okkur en sundrar. Það er ástæða fyrir því að framleiðslustýring af eða á er ekki skrifað inní stefnumótun LK í mjólkurframleiðslu til næstu 10 ára. Ástæðan er sú að markmiðin eru áfram þau sömu hvor leiðin sem er farin; að greinin þróist og dafni í takt við tímann og samfélagið og þeir sem kúabúskap stunda hafi af því eðlilega afkomu. Að kúabú verði áfram um land allt og neytendur kjósi að versla íslenskar mjólkurafurðir á grunni gæða, uppruna og framleiðsluhátta.

Ég vil þakka öllum þeim sem sóttu haustfundina og sérstaklega þeim sem lögðu orð í belg. Stjórnin kemur vel nestuð frá fundunum og framundan er mikil vinna sem við munum nálgast af ábyrgð og með heildarhagsmuni greinarinnar að leiðarljósi.

Ritað á Hranastöðum, 9. nóvember 2018

Arnar Árnason