Beint í efni

Hátt verð á hveiti gæti orsakað hækkun áburðarverðs

11.08.2010

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Undanfarna daga og vikur hefur verð á hveiti snarhækkað í kjölfar útflutningsbanns á hveiti frá Rússlandi vegna hitabylgjunnar og kjarr- og skógareldanna sem þar hafa verið. Rússland er lang stærsti útflytjandi í heimi á hveiti og því hefur þessi ákvörðun jafn mikil áhrif á heimsmarkaðinn og raun ber vitni um. Hækkunin á hveitinu síðustu vikur er sú mesta í 40 ár, enda hafa nú fleiri lönd takmarkað útflutning sinn eins og Hvítarússland og Kasakstan. Þá er talið að Úkraína loki einnig fyrir útflutning, en Úkraína er næst stærsti útflytjandinn á hveiti. Uppskerubrestur á hveiti í Kanada og Asíu bætist svo við þessa stöðu. Þessi tíðindi

geta þýtt hækkað verð á tilbúnum áburði og bendir þróun á hlutafjárgengi Yara til þess að kaupahéðnar vænti þess.

 

Skýringin á því felst í stóraukinni eftirspurn eftir áburði til þess að svara kalli markaðarins eftir meira hveiti. Talið er að margir bændur horfi til hins háa verðs á hveiti og muni snarauka framleiðslu sína á næsta ári í von um mikinn hagnað. Svör við þessum vangaveltum ættu að liggja fyrir í lok mánaðarins en þá fara línur að skýrast með áburðarverð erlendis fyrir næsta ár.