Beint í efni

Hátt kjötverð á heimsmarkaði

09.09.2010

Um þessar mundir er kjötverð um allan heim nokkuð hátt og er útlit fyrir frekari hækkanir á næstunni á heimsmarkaðinum. Verðþróunin er sem fyrr leidd af nauta- og lambakjöti en svínakjöt eltir einnig upp á við, þó teygjan í svínakjötsverðið gefi nokkuð eftir um hríð. Ástæða þess að kjötverð er að hækka er í raun margþætt. Þannig hefur hefur t.d. hátt kornverð bein áhrif á kjötverðið en einnig er heimsbyggðin að ná sér upp úr efnahagslægðinni og þeim

er því að fjölga sem hafa efni á að kaupa kjöt sér til matar.

 

Ráðgjafafyrirtækið Agrocom telur að kjötverð verði í methæðum á næsta ári og að verðþróun kjötsins muni elta hátt kornverð með u.þ.b. 6 mánuðum, en það er nokkurnveginn sá tími sem það tekur að ala grís til slátrunar. Sem viðbótarrök fyrir því að kjötverð muni hækka telur Agrocom til þá staðreynd að hið háa kornverð hefur þrengt verulega að mörgum kjötframleiðendum sem eiga ekki aðra kosti en að hætta framleiðslu. Þetta skilji markaðinn eftir með færri framleiðendur og minna framboð sem getur ekki leitt til annars en hækkaðs verðs, sér í lagi nú þar sem kjötgeymslur heimsins eru ekki þandar. Eins og staðan er í dag sjást þess þó ekki bein merki að verðið sé að fara að hækka, en kjötframleiðsla Evrópusambandsins nú er 2-3% meiri en hún var fyrir ári síðan. Í Bandaríkjunum er hinsvegar staðan önnur, þar sem kjötframleiðslan hefur dregist saman um 3-4% miðað við sama tíma fyrir ári.