Hátt fóðurverð ýtir undir slátrun kúa
05.09.2012
Vestur í Bandaríkjunum eru þegar farin að sjást áhrif þess að hátt verð er á aðföngum nú um stundir. Þannig hefur orðið aukning í slátrun kúa miðað við sama tíma í fyrra og sem dæmi var 32.000 fleiri kúm slátrað í júlí í ár en í sama mánuði í fyrra. Alls var 239 þúsund kúm slátrað í mánuðinum og nemur aukningin því 15,5%.
Strax í júní varð vart aukningar í slátrun kúa þegar margir kúabændur sáu í hvað stefndi. Þessu var hinsvegar öfugt farið í maí en þá dró verulega úr slátrun miðað við árið 2011. Á þeim tíma var veðurútlitið fyrir sumarið mun betra en raun bar vitni um og því má segja að bjartsýni hafi verið hjá bændunum.
Á næstu vikum kemur svo í ljós hver fjöldi slátraðra kúa var í ágúst en á heimasíðu landbúnaðarstofnunar Bandaríkjanna kemur m.a. fram að það stefni í verulega aukningu í slátrun í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og að á árinu sé heildarslátrun gripa 4,9% meiri en árið 2011. Það eru því skýr teikn á lofti um að bandarískir kúabændur séu að draga saman seglin til þess að mæta hinum stóraukna fóðurkostnaði/SS.