Hátíð út í heim á næsta leiti!
08.01.2011
Eins og lesendum naut.is er kunnugt um þá er framundan ferð í febrúar á vegum Vélfangs, sem ber hið skemmtilega heiti „Hátíð út í heim“. Naut.is forvitnaðist nánar um ferðina og fyrir svörum varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Eyjólfur Pétur Pálmason. „Undirbúningurinn hjá okkur gengur afar vel og allt orðið klappað og klárt. Dagskráin lítur vel út og fararstjórinn okkar, hún Kristín Jónsdóttir, mun taka á móti okkur í París og þar er hún búin að finna nokkra skemmtilega
veitingastaði og er að skipuleggja skoðunarferð um þessa heimsborg“.
En hvernig er þá nánara ferðaskipulag? „Við leggjum af stað frá Keflavík sunnudaginn 13. febrúar og fljúgum þaðan til Frankfurt þar sem rúta bíður hópsins. Leiðin liggur svo niður til Bæjaralands, þar sem hópurinn byrjar á að skoða Fendt verksmiðjurnar, en svo höldum við áfram til Bad Saulgau. Í beinu framhaldi förum við til Saverne í Frakklandi, þar sem Kuhn verksmiðjurnar verða skoðaðar. Við endum svo í Metz í boði CLAAS en þar er stærsta rúlluvélaverksmiðja í Evrópu“, sagði Eyjólfur í viðtali við naut.is.
Samkvæmt dagskránni verður komið til París að kvöldi 17. febrúar og þar sem boðið verður upp á skoðunarferð og afslöppun m.m. Sunnudaginn 20. febrúar verður svo haldið á Sima landbúnaðrsýninguna í útjaðri Parísar, þar sem vélaáhugamenn geta heldur betur svalað forvitni sinni ásamt því að skoða afburðargripi af öðrum kúakynjum en því íslenska. „Það er nú rétt að taka fram að það er ekki skyldumæting á sýninguna og þar með er hægt að ná sér í aukadag í París fyrir þá/þær sem hafa áhuga á því“, bætti Eyjólfur við.
Aðspurður um þátttökuna sagði Eyjólfur að pöntuð hefði verið stærsta rúta sem hægt var að fá og tekur hún 59 manns í sæti og er það fjöldinn sem kemst með. Viðtökur bænda hafi verið frábærar og koma ferðafélagar allsstaðar af landinu með að þessu sinni. En er þá orðið uppselt? „Það var það, en vegna forfalla eru tvö sæti laus sem henta t.d. fyrir hjón eða tvo félaga. Ferðin kostar 124.500 kr. á mann í tveggja manna herbergi og innifalið í því er m.a. fullt fæði hálfa ferðina og morgunverður að sjálfsögðu allan tímann“, sagði Eyjólfur að lokum í viðtali við naut.is.
Kjósi einhver lesandi naut.is að næla í síðustu tvo miðana þá er hægt að fá nánari upplýsingar hjá starfsmönnum Vélfangs í s. 580-8200 eða með tölvupósti á velfang@velfang.is.