Beint í efni

Haraldur hættir sem formaður Bændasamtakanna á næsta búnaðarþingi

22.01.2013

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, mun stíga af formannsstóli á komandi búnaðarþingi, sem verður sett 3. mars næstkomandi. Ástæðan er sú að Haraldur mun sitja í öðru sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi til komandi alþingiskosninga. Nýr formaður Bændasamtakanna verður kjörinn á búnaðarþingi ásamt nýrri stjórn.

Í bréfi, sem Haraldur sendi samstarfsfólki sínu, þakkar hann þeim fyrir samstarfið síðustu níu ár. Með samstilltu átaki hafi náðst mikill árangur við að styrkja stöðu landbúnaðarins og sé hún nú allt önnur og sterkari en fyrir níu árum síðar. Þá segir Haraldur að hann hafi fengið hvatningu og áskoranir um að halda áfram sem formaður og þakkaði hann fyrir það. Hins vegar sé kominn tími á að kljást við ný viðfangsefni.