Beint í efni

Hár raforkukostnaður hamlar frekari framþróun í garðyrkjunni

21.02.2012

Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, kom til viðtals hjá Þóru Arnórsdóttur í Kastljósinu í gær 20. febrúar og lét í ljós áhyggjur garðyrkjubænda vegna hins háa raforkukostnaðar.

Bjarni rakti hvernig garðyrkjubændur hafa frá árinu 2008 þurft að horfa á verð á dreifingu raforku frá RARIK hækka verulega umfram verðlagsvísitölu sem hafi leitt til ójafnvægis milli þeirra sem rækta í dreifbýli og þéttbýli. Verði ekki leiðrétting á þessu sé hætta á stöðnun í greininni. Bjarni segir að í ljósi þess að RARIK sé opinbert fyrirtæki og að uppsafnaður hagnaður RARIK á dreifiveitu til garðyrkjubænda á síðustu árum sé það mikill, að það hljóti að vera svigrúm til lækkunar á þessum kostnaði.

Samband Garðyrkjubænda hefur látið gera kostnaðarmat á uppbyggingu eigin raforkudreifikerfi. Það sýni að slík framkvæmd, sem myndi kosta nálægt fimm hundruð milljónir, myndi borga sig upp á fimm árum.

Viðtalið við Bjarna má skoða á vef Ríkisútvarpsins:
http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/20022012