Beint í efni

Hál gólf gerð stöm að nýju!

30.08.2006

Það er alþekkt að með tímanum verða steypt gólf hál, umferð kúnna og flórsköfur sjá fyrir því. Að jafnaði eru bitar nægjanlega stamir fyrstu 2-3 árin, eftir það vilja þeir verða hálir. Um árabil hefur verið reynt að fræsa þá, en árangurinn af því er ekki til langframa. Í nýjasta tölublaði danska tímaritsins Bovilogisk er pistill um það hvernig árangursríkast er að koma í veg fyrir að steingólf og –bitar verði hál.

 Aðferðin felst einfaldlega í því að skera raufar í steypuna. Raufarnar eru 2-3 mm í þvermál og 2 mm á dýpt, best er að hafa millibilið 10 mm. Fyrirtæki á vegum Knud Iversen í Vemb á Vestur-Jótlandi hefur tekið að sér þetta verkefni síðan í desember sl. og er með 3 vélar í gangi við það. Kostnaðurinn er 30 dkk á fermetra, eða 360 íslenskar krónur.