Beint í efni

Hagþjónusta landbúnaðarins verði lögð niður í núverandi mynd

17.04.2004

Rétt í þessu samþykkti aðalfundur LK tillögu þess efnis að í tengslum við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins, verði hugað að því að sameina Hagþjónustu landbúnaðarins einnig í nýja stofnun. Fundurinn fagnaði sameiningaráformum landbúnaðarráðherra og leggur s.s. til að enn stærra skref verði tekið í uppstokkun fagstarfs í landbúnaði.

 

Tillagan í heild er svohljóðandi:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 fagnar þeirri uppstokkun sem nú er í gangi á fagþjónustu landbúnaðarins með stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands.  Fundurinn leggur áherslu á að sú endurskoðun taki til allra þátta fagstarfsins. Fundurinn leggur til að Hagþjónusta landbúnaðarins verði sameinuð hinni nýju stofnun og verði þannig kjarni hagfræðilegs fagstarfs í landbúnaði. Þá leggur fundurinn áherslu á að markmiðslýsing fyrir hina nýju stofnun verði í fullu samræmi við markmiðslýsingu búvörulaga.

 

Greinargerð

Markmiðslýsing búvörulaga er þessi:

   a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,
   b. að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,
   c. að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,
   d. að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,
   e. að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,
   f. að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað.

 

Markmiðslýsing rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands er hins vegar samkv. fyrirliggjandi frumvarpi sem hér segir:

    Hlutverk rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands er að afla og miðla þekkingu um fjölþætt hlutverk landbúnaðar sem byggist á íslenskri náttúru og menningararfleifð. Meðal verkefna sviðsins eru rannsóknir er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar, sem og rannsóknir er lúta að sjálfbærri og fjölþættri landnýtingu og umhverfismótun.