Beint í efni

Hagþjónusta landbúnaðarins kallar eftir búreikningum

10.06.2005

Um þessar mundir er verið að vinna að söfnun á búreikningum vegna rekstrarársins 2004 á vegum Hagþjónustu landbúnaðarins. Áætlað er að uppgjör búreikninganna muni liggja fyrir í ágúst nk. Landssamband kúabænda hvetur alla kúabændur landsins til að senda Hagþjónustunni búreikningagögn fyrir árið 2004 enda afar 

brýnt að fá sem réttasta mynd af rekstrarstöðu búgreinarinnar. Skil á búreikningum til Hagþjónustu landbúnaðarins er hluti af árlegri hagtölusöfnun í landbúnaði. Viðmiðunin undanfarin ár hefur verið sú að búreikningar berist Hagþjónustu landbúnaðarins á sama tíma og uppgjöri er skilað til skattyfirvalda en síðasti frestur á skattskilum einstaklinga í rekstri var 31. maí.

 

Leiðbeiningar um skil

Þegar senda á búreikning er valið Verkfæri í valröndinni og síðan Gagnaflutningar-dk-Búbót- Hagþjónusta landbúnaðarins. Þegar þangað er komið er valið bókhaldstímabil og hvernig gengið er frá gögnunum. Það er annaðhvort hægt að vista þau á tölvudisk og senda í pósti eða senda þau sem viðhengi í tölvupósti á netfangið ingibj@hag.is eða hag@hag.is.
 

Mikilvægt er að slá inn viðbótarupplýsingar um búreksturinn sem ekki koma fram í bókhaldinu. Þessar upplýsingar eru rekstrarform bús, ársverk, túnstærð, stærð grænfóðurs- og kornakra, aldur bænda, lömb til nytja, greiðslumark og heyuppskera í FE. Ef ekki hefur verið gert skattframtal í forritinu fyrir viðkomandi er mikilvægt að fyllt sé út bls. 4.08r2 (bústofnsblaðið) í skattframtali 4.08 en þar koma fram upplýsingar um bústofn. Við þennan gagnaflutning úr dkBúbót birtir forritið á skjánum samanlagðar niðurstöðutölur nokkurra tekjulykla og það magni og þann fjölda sem tengjast þeim. Til þess að hægt sé að senda reikninginn áfram þarf að staðfesta (haka við) að réttar upplýsingar sé um að ræða. Ef laga þarf upplýsingar um magn og/eða fjölda eða ekki er búið að skrá þær inn er farið í Uppflettingarhreyfingar, F5 Valmynd og valið Breyta tilvísun á færslu og viðkomandi upplýsingar settar inn.

 

Aðrir þættir sem búreikningur þarf að uppfylla svo að hann sé viðurkenndur í endanlegri úrvinnslu Hagþjónustu landbúnaðarins:

  1. Búreikningur þarf að vera fullfrágenginn, þ.e. efnahagur og rekstur að stemma.
  2. Stundum geta verið tiltölulega háar upphæðir í sjóði (lykill 7850). Þetta þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig og leiðrétta sjóðinn þegar svo ber undir, t.d. með því að færa á einkareikning, hafi einkaneysla ekki verið skráð sem skyldi. 
  3. Bústofnskaup (lyklar 7320 og 7321) verða að vera búgreinatengdir.
  4. Varðandi fyrirframkeyptan áburð í árslok 2004 sem gjaldfærður var á sama tíma er nauðsynlegt að hann sé einnig bókfærður á birgðabreytingu á lykil 2930 í kredit (án vsk.) og á móti sem birgðir í debet á lykil 7530. Fyrir búreikninga sem færðir voru á sama hátt í árslok 2003 er nauðsynlegt að sá áburður sé bakfærður á lykil 2930 í debet og kredit á birgðir 7530. Með því er tryggt að sú fjárhæð sem eftir stendur á lykli 2930 hafi einungis að geyma fyrirframkeyptan áburð sem keyptur var á bókhaldsárinu.
  5. Búreikningur þarf að innihalda magn og/eða fjölda þess, sem framleitt er á búinu, sem annaðhvort er selt eða notað heima. Einnig er æskilegt að fram komi magn helstu aðfanga, svo sem fóðurs (lyklar 3100-3260), áburður og sáðvara (lyklar 3310-3390) og eldsneytis (lyklar 3510-3520).
  6. Undir liðnum „ársverk (mán)“ á að skrá þann fjölda mánaða sem starfað var í fullu starfi við búið. Hér er átt við bæði ábúendur sjálfa og aðkeypt vinnuafl. Með þessu móti er reynt að meta heildarvinnuna við búreksturinn og í framhaldi af því launagreiðslugetuna á hvert ársverk á búinu.
  7. Undir liðnum „Heyuppskera FE“ skal skrá heyuppskeru í fóðureiningum, skipt á milli rúlluheys, þurrheys og votheys.

Ef einhverjar spurningar vakna þá vinsamlegast hafið samband við Ingibjörgu Sigurðardóttur hjá Hagþjónustu landbúnaðarins í síma 433-7080 eða með tölvupósti: ingibj@hag.is.