Beint í efni

Hagstæð langtímalán til bænda

15.03.2018

Auðvelda á aðgengi að hagstæðum lánum til bænda samkvæmt drögum að stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024. Áætlunin er unnin í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 þar sem kveðið er á um að áætlunin lýsi stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætluninni er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða og að efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins alls. Þetta kemur fram á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Markmiðið með hagstæðum langtímalánum til bænda er að stuðla að nýliðun, nýsköpun og nýfjárfestingum í landbúnaði um land allt. „Þetta er í samræmi við áherslur stjórnarsáttmálans um aukna nýsköpun til að styrkja grundvöll sjálfbærs landbúnaðar en augljóslega eru þessar aðgerðir einnig hugsaðar sem hjálp, til dæmis til ungra sauðfjárbænda sem standa höllustum fæti vegna tekjumissis“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Meðal annars er vísað til markmiða um dýravelferð og þess ákvæðis að fyrir lok árs 2034 verði öll fjós landsins lausagöngufjós. Samkvæmt skýrslu LK um þróun fjósgerða og mjaltatækni 2015-2017 sem birt var í byrjun árs, eru nú 52% fjósa landsins lausagöngufjós. Einnig kemur fram í greinargerð frumvarpsins að mikil aukning hafi orðið á lánum Byggðastofnunar til landbúnaðar og allt bendi til að sú þróun haldi áfram. Því þarf að gera stofnuninni kleift að svara þörfinni.  en miðað er við að lánin verði veitt af Byggðastofnun og árangur af verkefninu verði meðal annars mældur í fjölda lána og upphæð lánveitinga, samkvæmt því sem fram kemur í frétt Vísis um málið.

Drög að byggðaáætlun eru nú í kynningu á vef Stjórnarráðsins og hægt er að senda umsagnir um hana til 21. mars næstkomandi.