Beint í efni

Hágæða fóðurverksmiðja á Akureyri

20.08.2010

Fyrirtækið Bústólpi á Akureyri hefur á liðnum árum verið að stækka og auka umsvif sín, en nú starfa hjá fyrirtækinu 14 manns og er velta þess um 1200 milljónir á ári. Nú í sumar hefur staðið yfir algjör endurnýjun á framleiðslubúnaði í fóðurverksmiðju fyrirtækisins. Unnið hefur verið eftir þriggja ára áætlun frá árinu 2007 við endurgerð verksmiðjunnar, en á árinu 2008 var skipt um allan raf- og stýribúnað verksmiðjunnar og endurnýjaður búnaður til löndunar hráefna. Í fyrra var unnið að endurbótum á húsnæði og settur upp rykhreinsibúnaður í kornhlöðu verksmiðjunnar svo eitthvað sé nefnt. Áfanginn í sumar er síðan sá stærsti í endurnýjuninni, þar sem sett hefur verið upp ný vinnslulína til framleiðslu og kögglunar á fóðri. Jafnframt er þar um nýja tækni að ræða við fóðurframleiðsluna sem bæði eykur fóðurgildi fóðursins og kögglagæði. Þessum framkvæmdum

er nú að mestu lokið og reiknað er með að allur nýji búnaðurinn verði kominn í fulla notkun nú með haustinu. Að þessum breytingum loknum verður Bústólpi með hágæða verksmiðju, sem gefur möguleika á nýjum tækifærum til vöruþróunar og sóknar enda næst með hinum nýja búnaði að tvöfalda afköst framleiðslunnar frá því sem var með eldri búnaði.

 

Að sögn Hólmgeirs Karlssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hefur fóðursala Bústólpa í heildina gengið mjög vel þrátt fyrir að töluverður samdráttur hafi verið í heildarsölu fóðurs á landsvísu. „Það sem af er ári er minnkun hjá okkur í fóðursölunni ekki nema um 5%. Mikil aukning hefur hinsvegar verið í sölu á rekstrarvörum og þá aðallega heyverkunarvörum, girðingarefni og kálfa- og lambamjólk. Því er hins vegar ekki að leyna að framlegð af fóðursölunni hefur minnkað verulega á s.l. tveimur árum og hefur því verið afar mikilvægt fyrir fyrirtækið að ná að auka umsvif sín í annarri þjónustu við bændur. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu hefur okkur tekist að auka veltu og umsvif félagsins umtalsvert á síðustu árum“, sagði Hólmgeir í viðtali við naut.is.

 

Aðspurður um mögulega sóknarfæri fyrirtækisins sagði Hólmgeir að forsvarsmenn fyrirtækisins líti á starfsemi Bústólpa sem afar mikilvæga fyrir landbúnað á Norður- og Austurlandi. „Við höfum bæði sýnt það og sannað að það er til muna hagkvæmara að framleiða fóður hér til dreifingar á þessu svæði, en að koma með það um lengri veg eða flytja inn tilbúið. Okkar innlenda fóðurframleiðsla hefur einnig mikla sérstöðu þar sem við nýtum hágæða fiskimjöl sem aðal próteingjafa, nokkuð sem ekki er heimilt í löndum ESB.

 

Vissulega er framtíð Bústólpa og landbúnaðarins hér mjög háð dutlungum stjórnmálanna, en það er okkar trú að skynsemin verði ofaná og við sem þjóð náum sátt um mikilvægi landbúnaðarins bæði til að tryggja fæðuöryggi okkar og einnig við að halda landinu í byggð þannig að aðrar greinar eins og ferðaþjónustan hafi skilyrði til vaxtar og þroska á þeim svæðum.

 

Við sjáum því okkar sóknarfæri í því að standa þétt við bakið á bændum og taka þátt í þeirri þróun sem á sér stað hjá þeim. Þannig höfum við t.d. komið að innlendri kornrækt á síðustu árum bæði með því að fjárfesta með bændum í búnaði til þurrkunar á korni en einnig með því að vinna kornið fyrir bændur þannig að það henti betur við nútíma fóðurgjöf. Á síðasta ári unnum við þannig tæp 400 tonn af byggi fyrir bændur og keyptum nálega annað eins til eigin framleiðslu.

 

Okkar stefna er að geta veitt bændum heildstæða þjónustu við fóðrun og öflun rekstrarvara sem nauðsynlegar eru við landbúnaðarframleiðsluna. Til lengri tíma litið sjáum við einnig sóknarfæri í því að framleiða hér meira af sérhæfðum vörum ekki síst til kálfaeldis, þar sem það er okkar trúað slíkt muni koma mjólkurframleiðslunni til góða. Grunnurinn að öflugri og hagkvæmri mjólkurframleiðslu er lagður strax við eldi og rétt atlæti kvígukálfanna sem eiga að fara í framleiðsluna.

 

Við allar þær fjárfestingar og breytingar sem við höfum unnið að nú að undanförnu er arðsemi okkar leiðarljós og miða þannig allar þessar breytingar að því að geta útvegað bændum betra fóður fyrir lægra verð til framtíðar. Þar leggjum við grunninn að okkar tilvist og þar liggur því klárlega okkar stærsta sóknarfæri sem öll önnur starfsemi ekkar mun geta byggt á“, sagði Hólmgeir.

 

Næstu skref hjá fyrirtækinu eru að vinna úr þeim tækifærum sem nýr vinnslubúnaður skapar því og að aðlaga og hámarka fóðuruppskriftirnar útrfrá þeim skilyrðum. Þá verður einnig unnið að undirbúningi þess að geta bætt aðstöðu Bústólpa í versluninni á Akureyri. „Samningar standa yfir við bæinn og nágranna okkar um stækkun á lóð félagsins, en við stefnum að því að koma allri starfseminni fyrir á einum stað, en í dag er Bústólpi með athafnasvæði á tveimur stöðum í bænum“, sagði Hólmgeir að lokum í viðtali við naut.is.