Beint í efni

Hafðu ljós hjá kálfunum!

10.12.2016

Undanfarin ár hafa verið gerðar margar rannsóknir á atferli kálfa og hvernig mismunandi umhverfi hefur áhrif á kálfana. Góð lýsing er t.a.m. afar mikilvæg eigi kálfurinn að dafna vel en sýnt hefur verið fram á að sé lýsing hjá kálfum góð drekka þeir og éta meira en ella auk þess sem þeir hvílast betur.

 

Rannsókn, sem unnin var af Osborne og fleirum árið 2007, sýndi m.a. að með því að auka lýsingu hjá kálfum úr 8 klukkustundum á dag í 16 klukkustundir á dag var hægt að auka vöxt þeirra um heil 200 grömm á dag fyrstu 56 dagana í lífi kálfanna. Þetta gerðist vegna aukins át á kjarnfóðri og aukinnar vatnsdrykkju. Þess utan þroskaðist meltingarvegur kálfanna, sem fengu betri lýsingu, hraðar og betur en annarra. Aðrar rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á að kálfar hafa einnig þörf fyrir góða hvíld og myrkur og þurfa 8 klukkutíma ró á sólarhring.

 

Vegna framangreindrar þekkingar er í dag mælt með því í Danmörku að lýsing hjá kálfum sé stýrt með sjálfvirkum hætti þannig að full lýsing sé í 16 klukkustundir á dag og svo verði einungis ratljós hjá þeim hina 8 tímana. Mælt er með því að ljósstyrkur hjá smákálfum sé 200 lúx en 170 lúx hjá eldri kálfum. Þessum mörku ætti að vera auðvelt að ná með einföldum díóðuljósum (LED) sem taka auk þess afar lítinn straum. Sjálfvirka stillingu á lýsingunni má einnig auðveldlega koma fyrir með einföldum hætti og án mikils kostnaðar. T.d. nota margir danskir bændur einfaldlega klukkustýringu á tengla líkt og kaupa má víða í verslunum núna fyrir jólin/SS.