Beint í efni

Hafa margfaldað mjólkurframleiðsluna á áratug!

15.10.2011

Fyrr á árinu komu til landsins fyrstu mjaltaþjónarnir af gerðinni Lely A4, sem er ný kynslóð mjaltaþjóna frá þessu þekkta fyrirtæki. Annar mjaltaþjónanna fór að Móeiðarhvoli II í Rangárþingi Eystra í Rangárvallasýslu, en þar búa þau Birkir Arnar Tómasson og Bóel Anna Þórisdóttir. Þau keyptu jörðina ásamt áhöfn í maí 1998 og tóku þá við búinu. Þá voru þar 15 kýr og 180 ær ásamt nokkrum tugum hrossa og var kaupverðið þá talið hátt af mörgum, segir Birkir í viðtali við naut.is og bætir við: „Á þessum 13 árum sem liðin eru höfum við eignast fjögur börn sem eru nú á aldrinum 3ja til 12 ára, elst þeirra er Belinda Margrét, þá Róbert Bjarmi, svo kemur Sólrós Vaka og yngstur er Ívar Ylur“.

 

Verðandi kúabændur frá Móeiðarhvoli!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðspurður um búskapinn svaraði hann því til að þau starfa sjálf mest við búskapinn, en stundum eru þau með auka starfsmann og þá helst á sumrin. Svo eru elstu börnin að koma inn í búskapinn einnig og aðstoða einnig á heimilinu eins og gengur.

 

Séð heim að útihúsunum að Móeiðarhvoli með repjuakur í forgrunni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þeir sem þekkja til á Móeiðarhvoli vita að þar er alltaf mikið um að vera. „Það má segja að við höfum á undanförnum árum byggt eða endurbyggt öll hús á jörðinni að undanskildum bílskúr, en hann bíður komandi vetrar og mun fá sína upplyftingu. Þá rifum við mikið af húsum sem voru úr sér gengin og nokkra kílómetra af girðingum fyrstu árin okkar hér“.

 

Hér má svo sjá lista yfir helstu framkvæmdirnar á búinu:

Árið 1999 var byggður mjaltarbás og mjólkurhús

Árið 2001 byggt legubásafjós sem viðbygging

Árið 2005 var byggð vélaskemma og hesthús

Árið 2006 var settur upp Lely mjaltaþjónn

Árið 2007 var komið að því að gera kornhlöðu, þurrkara og 160 tonna geymslur fyrir korn

Árið 2008 var fjárhúsið endurgert og hýsir nú nautgripi

Á árunum 2001 til 2011 hefur verið unnið töluvert í íbúðarhúsinu og það er nú endurgert. Mest var þó unnið í breytingum á húsinu árin 2009 og 2010

Árið 2011 voru svo endurbyggðar og stækkaðar mjólkurkálfastíur, auk sjúkra- og burðarstía og nýji mjaltaþjónninn!

 

Búið að taka allt íbúðarhúsið í gegn!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessu samhliða var greiðslumark búsins aukið og fyrstu sex búskaparárin þeirra voru keyptir á búið u.þ.b. 50 þúsund lítrar árlega til þess að fylgja eftir stækkun búsins. Í dag búa þau með 60-70 mjólkurkýr ásamt öllu uppeldi sem því fylgir en þau kaupa einnig að nokkuð af nautkálfum og eru nautgripirnir á búinu nærri því 260 alls.

 

Nú er Móeiðarhvoll einstaklega vel í sveit sett hvað snertir ræktunarmöguleika og það hefur berlega sést á búskapnum á liðnum árum. „Við settum okkur strax í byrjum að stunda mikla jarðrækt, enda jörðin sérlega góð ræktunarlega séð. Í ár erum við með rúmlega 55 hektara af korni og höfrum, aðra 20 hektara í grænfóðri, grasi og tilraunaræktun olíuplanta. Svo erum við með okkar eigin þreskivél og kornþurrkara sem getur tekið við uppskerunni á búinu“.

 

Framleiðsla á plöntuolíu er reynd að Móeiðarhvoli. Hér sést Ívar Ylur í myndarlegum akri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðspurður um vélamálin á búinu segist Birkir vera með ólæknandi véladellu og því hafi legið beinast við að fara í verktakastarfsemi og má segja að hann sjái um slátt og/eða rúllun að mestu á fimm öðrum jörðum. Síðastliðið vor keyptu þau einnig sáningsvél af fullkomnustu gerð sem setur áburð með fræi og valtar yfir og eftir að sáningu var lokið á Móeiðarhvoli í vor var vélin notuð á öðrum búum einnig.

 

En það er ekki eingöngu Birkir sem er með ólæknandi „dellu“ því Bóel er einnig á kafi í hestamennskunni og sér um þá deild á búinu að mestu. Þar er reyndar mesta innkoman í formi ánægju Bóelar en einnig í folaldasölu og blóðsölu úr stóðmerunum.

 

Myndarlegar græjur eru til á Móeiðarhvoli

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í ljósi framangreindra upplýsinga liggur beinast við að spyrja út í reksturinn: „Það má segja að síðastliðin þrjú ár hafi tekjur búsins skipst nokkuð jafnt á milli mjólkursölunnar og annarra rekstrarþátta búsins. Við höfum þó mun meiri fjárbindingu í mjólkurframleiðsluhluta rekstursins“, segir Birkir.

 

En af hverju að kaupa sér mjaltaþjón fyrst árið 2006 og endurnýja hann og skipta út fyrir nýjan þegar í ár? „Við höfum gert þetta frekar skipulega allt saman og ákváðum að setja okkur stefnu með ákveðinni framtíðarsýn fyrir búið til næstu ára. Við höfum svo reynt að halda okkur við þessa stefnu, sem m.a. tók til mjaltatækninnar“, segir Birkir og heldur áfram „Þannig var að þegar við fengum okkur Lely A3 mjaltaþjón árið 2006, höfðum við verið með lítið og lélegt mjaltakerfi í mjaltagryfju sem stóð okkur fyrir þrifum með frekari stækkun í huga. Við vorum full bjartsýni, eins og líklega flestir árið 2006, en segja má að róbótinn hafi gengið mjög illa fyrstu mánuðina og fljótlega kom í ljós að það þurfti meiri yfirlegu yfir honum en við höfðum vænst. Þó mjólkaði hann ágætlega þegar fram liðu stundir og sló í tæpa 1.600 ltr á sólarhring eða 24,5 lítra á hverja kú þegar best lét, en með gífurlegri vinnu“.

 

Kúabændurnir Bóel og Birkir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Haustið 2010 var Birkir á landbúnaðarsýningunni EuroTier í Hannover og þar sá hann hinn nýja Lely A4 mjaltaþjón og leyst honum strax betur á hann heldur þann gamla og ekki er nú óvíst að véladellan og nýjungagirni hafi þar haft nokkur áhrif. Að sögn Birkis virkaði þessi nýji mjaltaþjonn miklu einfaldari og auðveldari í umgengni. Nokkrir samverkandi þættir urðu svo til þess að þau ákváðu að festa kaup á nýjum mjaltaþjóni. Bæði voru framleiðsluábyrgðir að falla niður á A3 mjaltaþjóninum auk þess sem þeim fannst að allir varahlutir í hann væru óheyrilega dýrir. Auk þess var útlit fyrir að komið væri að nokkuð miklu viðhaldi á hinu fimm ára gamla tæki. Gamli mjaltaþjónninn var svo tekinn upp í hinn nýja mjaltaþjón.

 

„Við ákváðum að setja nýja mjaltaþjóninn á annan stað í fjósinu til þess að breyta umferðinni og reyna að fá betra flæði á kúnum um fjósið. Það, ásamt miklu betri innkomu í mjaltaþjóninn sjálfan, gjörbreytti vinnunni í fjósinu og létti hana mikið. Svo á eftir að koma í ljós hvort endingin verði eins góð og vonir standa til. Hins vegar fylgja því ákveðin vandamál að taka í notkun tæki sem ekki er komið víða í notkun. Sem dæmi um það þá hefur verið nánast vonlaust að fá viðgerðarþjónustu fyrir nýja mjaltaþjóninn þær helgar sem ákveðnir þjónustumenn eru í fríi og það verður að viðurkennast að það reynir hraustlega á þolrifin að ná ekki í neinn sem kann á hlutina þegar mjaltir eru stopp“, segir Birkir.

 

En eru þau þá ósátt við hina nýju fjárfestingu? „Nei heilt yfir þá erum við ánægðari með A4 heldur en A3, sérstaklega vegna þess að hann er auðveldari umgengni og með bætta vinnuaðstöðu, en það hefur sýnt sig að það skiptir máli hvar róbótinn er staðsettur, að ég tali nú ekki um í gömlu fjósi eins og hjá okkur“.

 

Að lokum er rétt að spyrja um hvort þau myndu gera það sama í dag ef þau stæðu í sömu sporum og þau voru í árið 2006. „Ef við lítum til baka, þá teljum við að við myndum gera það sama. Okkur langaði að prófa hvort okkur líkaði við mjaltaþjónamjaltir og þó svo að það hafi tekið tíma að venjast þeim, líklega mun lengri tíma en það tók kýrnar að venjast mjöltunum, erum við nokkuð sátt í dag. Hins vegar ef ég ætti að líta á dæmið eingöngu út frá rekstrarlegum forsendum, þá væri ég í dag með stóran mjaltabás og vinnumann, vegna þess að rekstrarkostnaður á mjaltaþjóni er alls ekki lítill auk þess sem stækkunarmöguleikar eru mun erfiðari en ef maður er með mjaltabás“, sagði Birkir að lokum í viðtali við naut.is/SS.