Beint í efni

Hafa kyngreint 500 þúsund skammta!

06.10.2010

Frá því vorið 2007 hafa starfsmenn Viking Genetics haft í nógu að snúast til þess að svara mikilli eftirspurn kúabænda eftir kyngreindu sæði, en nú rúmum þremur árum síðar hafa verið afgreidd 500 þúsund strá. Kyngreiningin fer fram á rannsóknarstofu fyrirtækisins í Assentoft og er mest eftirspurn eftir Holstein kvígusæði en alls hafa verið sendir út 280 þúsund

þannig skammtar, úr 93 nautum.

 

Næst á eftir koma svo rauðu kynin með 120 þúsund skammta og vinsælast þeirra er hið danska RDM, en alls hafa 60 þúsund skammtar úr 18 nautum verið kyngreindir. Næst vinsælasta rauða kynið er hið finnska Ayrshire þar sem 38 þúsund skammtar hafa verið kyngreindir úr fjórum nautum og í þriðja sæti eru sænsku rauðu nautin af SRB kyninu en Viking Genetics hefur grein 22 þúsund skammta úr fjórum SRB nautum.

 

Þriðja vinsælasta kynið er Jersey með 95 þúsund skammta en önnur kyn hafa mun færri skammta kyngreinda.

 

Lang stærsti kaupendahópur Viking Genetics er í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð enda eru þau lönd sk. heimamarkaðslönd fyrirtækisins. Eftir að naut frá Viking Genetics fóru að sanna sig í öðrum löndum hefur eftirspurn eftir sæði vaxið og má segja að kúabændurnir sem eiga Viking Genetics séu að uppskera núna í aukinni sölu á alþjóðlegum mörkuðum.

 

Nýjasta afurð fyrirtækisins er svo kyngreint sæði úr holdanautum sem sérstaklega er þá ætlað í blendingsræktun. Sæðið úr holdanautunum er, öfugt við sæðið úr mjólkurkynunum, allt með Y-litningum og er sæðið selt með 85% öryggi á að kálfurinn sem fæðist verði naut.