
Hætturnar sem leynast í svefnleysi
02.01.2020
Bændur eru stétt sem er þekkt fyrir það að vera að á öllum tímum sólahringsins. Það þarf að vaka yfir veikum grip, vakta burð, ná heyi í plast, sinna viðgerðum vegna anna næsta dags og svo mætti áfram telja. Þær eru margar hætturnar sem leynast í daglegum störfum bænda og því eykst hættan á slysum þegar svefnleysi bætist ofan á annir.
Talað er um að fullorðnir einstaklingar eigi að ná 7-8 klukkustunda svefni hverja nótt til að vera úthvíldur. Algengt er að svefntruflanir komi fram með aldrinum, þannig að fólk sefur minna á nóttu. Svefnþörfin breytist þó ekki og eldra fólk bætir sér oft upp lítinn nætursvefn með því að leggja sig á daginn.
Afleiðingar svefnleysis geta meðal annars verið að maður nær ekki að einbeita sér eða einbeiting er auðveldlega trufluð með utan að komandi þáttum, maður getur verið lengur að bregðast við ef eitthvað út af ber, samhæfing minnkar og hreyfingar verða hægari ásamt því að ákvarðanatökur geta ruglað mann og gleymska eykst. Slíkt getur auðveldlega leitt til slysa bæði á mönnum og dýrum þegar unnið er uppi til sveita. Þá eykur minni svefn líkurnar á stressi, áhyggjum, kvíða, þunglyndi, hærri blóðþrýsing, hjartatruflunum, ofþyngd og sykursýki.
Svefn er ákaflega reglulegt fyrirbæri og stjórnast að verulegu leyti af fyrri vöku og tíma sólarhrings. Þannig aukast líkur á svefni hafi lengi verið vakað og að sama skapi auknast líkur á svefni á ákveðnum tímum sólarhrings, þegar líkamshiti er lægstur og önnur starfsemi í lágmarki. Svefninn skiptist í 5 svefnstig sem eru ákvörðuð út frá heilarafriti. Svefninn hefur nánast sömu uppbyggingu og form hjá öllum sem sofa eðlilega og ótruflaðir. Hver nótt skiptist þannig á milli hinna fimm svefnstiga: Um 1% næturinnar er á svefnstigi 1, sem er léttasti svefninn, um 50% á svefnstigi 2, um 20% á svefnstigum 3 og 4, djúpsvefni, og um 25% í svokölluðum draumsvefni, eða REM-svefni.
Álitið er að REM-svefn og djúpsvefn, (svefnstig 3 og 4), séu mikilvægustu svefnstigin, enda kemur í ljós að styttist þau, t.d. um eina nótt, verður aukning á þeim næstu nótt eða nætur. Hjá þeim, sem sofa að jafnaði of lítið, er hægt að sjá talsverða aukningu á djúpsvefni, jafnvel þannig að svefn þrengir sér inn í vöku að degi til. Ef svefnskorturinn er mikill getur viðkomandi sofið og/eða sofnað óafvitandi. Einungis einnar nætur truflaður svefn getur haft áhrif á líðan og færni í nokkra daga.
Charlotte Halverson er hjúkrunarfræðingur hjá AgriSafe, samtökum sem vinna að bættri heilsu innan landbúnaðargeirans í Bandaríkjunum segir m.a.: „„Geta þín til að ná djúpum svefn hefur mikil áhrif á ónæmiskerfið, líffærastarfsemi, niðurbrot næringarefna, heilastarfsemi og heildar orku þína. Það er mikilvægt þegar þú ert að vinna á vinnuvélum, innan um stór dýr eða kringum hættuleg efni að vera vel sofinn. Ef þú ert svefnvana, getur það skipt miklu máli hvað varðar getu þína til vinnu og vitunar við störf.“
Rannsókn framkvæmd af National Institure of Health (NIH) og heilbrigðisdeild háskólans í Nebraska skoðaði svefnmynstur bænda og áhrif svefnleysis á jafnvægi þeirra. Niðurstöður sýndu að við minni svefn urðu bændur óstöðugri, jafnvel þegar þeir stóðu í báða fætur með opin augu. Þá sýndi hún einnig að bráður svefnmissir hafði mikil áhrif á bændur, líkurnar á óstöðugleika vegna svefnmissis voru 7,4 sinnum hærri ef bændurnir sváfu minna en venjulega nóttina áður.
Önnur rannsókn NIH meðal bænda í Iowa sýndi að bændur sem sváfu í minna en 7,5 klst á nóttu juku áhættu á meiðslumm um 61% samanborið við þá sem náðu 7,5 til 8,5 klst svefni. Neysla áfengis, þó ekki væri nema einn drykkur, jók áhættuna á meiðslum meðal þeirra sem ekki fengu nægan svefn.
Nokkur heilræði til að ná betri svefn:
- Hafðu reglu á fótaferðartíma, slíkt leiðir til reglulegri svefns.
- Hreyfðu þig daglega, líkamleg áreynsla leiðir til dýpri svefns. Reyndu þó að forðast mikið álag á kvöldin eða rétt fyrir svefn.
- Losaðu þig við allt sem getur framkallað hljóð að nóttu til úr herberginu, hljóð geta truflað svefn, jafnvel þeirra einstaklinga sem vakna ekki að fullu við hann.
- Gættu að því að fara hvorki svangur né þyrstur til svefns.
- Slepptu koffíni, helst eftir miðjan dag, til að ná góðum svefni.
- Reynið að halda hitanum í svefnherberginu á bilinu 20 – 24°C (en 18 – 21°C ef ungbarn sefur í herberginu).
- Áfengi getur hjálpað til við að sofna en svefninn sem viðkomandi fær verður slitróttur og lélegur.
- Ekki horfa á sjónvarp eða nota síma um klst fyrir svefn. Birtan af slíkum tækjum er oft gerð til að halda okkur vakandi lengur og spila inn á skilningarvit okkar sem verður til þess að við þurfum lengri tíma til að sofna.
- Hafið opinn glugga til að tryggja loftflæði í svefnherberginu.
- Gott rúm er góð fjárfesting. Gættu að því að rúmið þitt henti líkama þínum og þörfum.
- Heitt bað eða sturta stuttu fyrir háttinn getur auðveldað sumum að sofna.
- Lítið ljós, rólegheit og slakandi umgjörð í herbergi hjálpa til.
- Ekki sofa með síma inni í herberginu. Ýmis hljóð og birta frá slíkjum tækjum getur truflað dýpri svefn.
- Ef þú ert ekki að ná að sofna er gott að fara frekar fram úr, gera eitthvað annað og reyna svo að fara aftur að sofa þegar þreytan sækir að.
Hvenær þarftu að leita þér hjálpar?
Ef svefnerfiðleikar eru til staðar lengur en eina viku, eða ef syfja á daginn háir þér mikið er ástæða til að hafa samband við lækni. Til þess að læknisheimsóknin nýtist sem best getur verið gagnlegt að fylla út svefnskrá í viku til tíu daga til þess að auðvelda þér og lækninum að sjá hvernig þú sefur, og hverjar mögulegar orsakir fyrir svefntruflunum eru. Ef grunur er um kæfisvefn getur læknir sent þig í nánari rannsóknir sem skera úr um það.
Ef vandamálið er hvað þú ert lengi að sofna, hvað þú vaknar oft eða að þú vaknir ekki fullhvíldur er mögulegt að hægt sé að bæta úr því með breytingum á lífsstíl. Í sumum tilfellum dugar það ekki til, en þá geta svefnlyf komið að góðum notum. Oftast ætti að duga að nota svefnlyf í skamman tíma, eða þangað til búið er að bæta úr öðru sem truflar svefninn. Ef svefnlyf eru notuð í langan tíma fylgir þeim ávanahætta.
Það er hægt að fá náttúrulyf án lyfseðils sem hjálpa þér að sofna, en aðeins ætti að nota þau í skamman tíma í senn. Læknir eða lyfjafræðingur getur ráðlagt þér nánar um rétta notkun á þeim.
Hugum að heilsunni og komumst hjá slysum.