Hætta tveir kúabændur á dag?
20.08.2011
Samkvæmt könnun DairyCo í Stóra-Bretlandi ætla 13% starfandi kúabænda að hætta á næstu 12 mánuðum og hafa ráðamenn áhyggjur af þeirri stöðu. Ástæðan felst í því að framleiðslugeta búa Stóra-Bretlands er nú þegar þanin og því telja forsvarsmenn bænda að byggja þurfi við og/eða ný kúabú. Það kallar eðlilega á miklar fjárfestingar sem fæstir leggja í þessi misserin og er þ.a.l. útlit fyrir að mjólkurframleiðslan muni einfaldlega dragast saman ef svo fer sem horfir enda sögðust einungis 31% spurðra kúabænda ætla að auka framleiðslu búa sinna.
Þó svo að bændur hætti búskap þá þarf það ekki endilega að kalla á framangreinda niðurstöðu, en þróunin virðist vera ansi hröð í Stóra-Bretlandi. Þegar sambærileg könnun var gerð á vegum DairyCo í fyrra sögðust 9% kúabændanna vera að hugsa um að hætta. Þessi mikla aukning á milli ára er í raun það sem ráðamenn hafa áhyggjur af. Á sama tíma lækkar hlutfall þeirra kúabænda sem segjast ætla að auka framleiðslu sína (úr 35% í 31%) og rétt um helmingur kúabændanna telur að framleiðsla bús síns verði svipuð í ár og í fyrra. Þá vekur athygli að einungis 6% bændanna ætla að verja 250.000 pundum eða meiru (45-50 milljónir íkr) til fjárfestinga á næstu 5 árum. Samkvæmt reynslu greinenda hjá DairyCo þýðir þessi staða að framleiðslan muni dragast saman um allt að 4% á næstu tveimur árum vegna skorts á endurnýjun aðstöðu og/eða tækja.
Skýringarnar sem kúabændurnir gefa á þessari svartsýni er lágt afurðaverð og hátt aðfangaverð. Þá kom fram í sömu könnun að þó svo að 56% svarenda hafi sagt afurðaverð of lágt voru 54% kúabændanna ánægðir með framleiðslusamning sinn við afurðafélagið þó svo ekki megi líta fram hjá því að 36% voru hreinlega ósáttir með samninginn. Þess má geta hér að í Stóra-Bretlandi gera kúabændur langtímasamninga við afurðastöðvar (lang flestar einkareknar) með 12 mánaða uppsagnarákvæðum.
Meðalaldur bændanna 1.200 sem tóku þátt í könnun DairyCo var 54 ár og einungis 9% undir 39 ára. Þó fáir svarendur væru „ungir“ kom skýrt fram að þeir líta oftar en ekki bjartari augum á framtíðina og flestir þeirra sem voru yngri en 30 ára ætla að auka framleiðslu búa sinna/SS.