Beint í efni

Hæstiréttur telur jarðefni úr jarðgöngum verðlaus og ekki háð eignarrétti landeigenda

22.02.2008

Landeigendur á Austurlandi töpuðu málaferlum við ríkið fyrir Hæstarétti í gær vegna eignarnámsbóta sem þeir kröfðust vegna framkvæmda við jarðgangagerð milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Deilan stóð m.a. um vegarstæði og stærð eignarnámslands en ekki síst um rétt landeigenda til að fá bætur vegna efnistöku úr göngunum og þar með um eignarrétt jarðefnanna. Landsvæði stefnenda var tekið eignarnámi og heimiluðu jarðeigendur ríkinu að hefja framkvæmdir þó ekki lægi fyrir samkomulag um bætur. Landeigendur héldu því fram að jarðefnin úr göngunum væru háð eignarrétti þeirra og féllu undir hugtakið auðlind samkvæmt lögum.


Vegagerðin nýtti jarðefnin til vegagerðar

Í málinu var óumdeilt að jarðgöngin væru innan landamerkja umræddra jarða. Þá lá það jafnframt fyrir að Vegagerðin nýtti öll umrædd jarðefni til þess að leggja nýjan veg að göngunum. Vegna ágreinings um eignarnámsbætur var málunum skotið til matsnefndar eignarnámsbóta sem úrskurðaði að íslenska ríkið skyldi greiða bætur fyrir efnistökuna. Var sú niðurstaða staðfest í héraðsdómi. Hæstiréttur sneri hins vegar við dómi héraðsdóms og úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta.


Verðmætið ekkert að mati Hæstaréttar
Í niðurstöðu Hæstaréttar var litið til raunkostnaðar við að vinna hvern rúmmetra efnisins úr veggöngunum og þá jafnframt áætlaðs kostnaðar af vinnslu efnisins ef um efnistökugöng hefði verið að ræða. Þannig væri ljóst að verðgildi efnisins eftir nám hefði einungis verið lítið brot af kostnaðinum við að vinna það. Væri hafið yfir allan vafa að efnisnámið hefði ekki getað gefið af sér arð og yrði því að leggja til grundvallar að verðmæti efnisins í jörðu væri ekkert. Gæti jarðgangaefnið af þeirri ástæðu ekki fallið undir hugtakið auðlind og félli því utan við það sem teldist eign landeigenda undir yfirborði lands hans. Var Vegagerðinni þannig heimilt að taka efnið og nýta það og íslenska ríkið sýknað af frekari bótakröfum landeigenda.


Dóma Hæstaréttar má sjá á vefsíðunni www.haestirettur.is.
Mál nr. 644/2006
Már nr. 645/2006