Dómurinn víkur í engu að sjónarmiðum um viðkvæma sjúkdómastöðu íslenskra búfjárkynja. Það var heldur ekki gert í dómi EFTA-dómstólsins í nóvember í fyrra heldur virðist hann eingöngu hafa byggt á því að þar sem markmið matvælalöggjafarinnar sé að samræma löggjöf á þessu sviði innan EES-svæðisins komi ekki til álita að heimilt sé fyrir einstök lönd sem eiga aðild að samningnum að beita fyrir sig 13. grein hans.

Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms í hráakjötsmálinu
12.10.2018
Í gær, fimmtudaginn 11. október, staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ferskra kjötvara gegn ríkinu, vegna þess að fyrirtækinu var bannað að flytja inn ferskt hrátt kjöt árið 2016. Meðal skilyrða fyrir innflutningnum var að kjötið hefði verið fryst í ákveðinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Ferskar kjötvörur töldu ákvörðunina í andstöðu við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Með dómnum er staðfest að ekki má setja skorður við innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum, en slíkar hömlur voru lögleiddar á Íslandi þegar matvælalöggjöf ESB var innleidd árið 2009.
Baráttunni hvergi nærri lokið
Í yfirlýsingu sem Bændasamtök Íslands sendu frá sér í gær segir að samtökin muni ekki láta hér staðar numið og heita á alla málsmetandi að veita því liðsinni áfram. í yfirlýsingunni segir m.a.: „Verndun íslensku búfjárkynjanna sem menningarverðmæta og erfðaauðlindar sé mál sem varðar alla. Auk skuldbindinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni sé fjölbreytileikinn hluti af aðdráttarafli landsins fyrir ferðamenn og órjúfanlegur hluti af menningu landsbyggðarinnar.
Bændasamtök Íslands telja eðlilegt og sanngjarnt að íslensk stjórnvöld fari fram á það við ESB að áfram verði heimilt að að beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu manna og dýra, enda standa til þess full rök sem ekki hafa verið hrakin.“
Landssamband kúabænda hefur látið sig málið mikið varða enda um gríðarmikið hagsmunamál að ræða fyrir allan íslenskan landbúnað. Áfram munu samtökin vinna að baráttunni í samstarfi við Bændasamtök Íslands.
Sótt um tryggingar fyrir öryggi matvæla
Í yfirlýsingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir m.a. að í dómnum sé vísað til niðurstöðu EFTA-dómstólsins um að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Nánar tiltekið að ekki væri unnt að vísa til markmiðsins um vernd lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum innan EES, eins og það birtist í 13. gr. EES-samningsins, til að réttlæta takmarkanir á innflutningi í tilvikum þar sem tilskipun kveður á um samræmingu nauðsynlegra aðgerða til að tryggja vernd og heilsu dýra og manna.
Þar kemur einnig fram að frá uppkvaðningu dóms EFTA-dómstólsins í nóvember í fyrra hafi það verið forgangsmál stjórnvalda að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. „Við þá vinnu hefur verið lögð áhersla á að tryggja öryggi matvæla og vernd búfjárstofna. Í júlí sl. sendi Ísland umsókn til Eftirlitsstofnunar EFTA um heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar. Slíkar tryggingar, sem önnur Norðurlönd hafa þegar fengið, munu gera stjórnvöldum kleift að krefjast ákveðinna vottorða um að tilteknar afurðir séu lausar við salmonellu. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum aðgerðum, m.a. varðandi kampýlóbakter.“
Frumvarp til breytinga á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er á þingmálaskrá 149. löggjafarþings 2018-2019. Stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpinu í febrúar samkvæmt upplýsingum á vef ráðuneytisins.