Beint í efni

Hæsta afurðastöðvaverð í fimm ár

29.08.2013

Það berast góð tíðindi frá mjólkurmarkðinum í Hollandi nú um stundir en lítil framleiðsla samhliða mikilli eftirspurn hefur haft afar góð áhrif á þarlendan afurðamarkað og þar með greiðslur til kúabænda. Þetta hefur gert það að verkum að bændur fengu nú í upphafi mánaðarins hæsta verð fyrir mjólk sína sem þeir hafa fengið í fimm ár eða 75,7 íkr/lítrann.

 

Þetta verð myndast reyndar á uppboðsmarkaði og á þeim markaði eru ekki nema um 10% mjólkurmagnsins sem framleitt er í Hollandi, en hingað til hefur þó þessi markaður alltaf gefið fyrirheit um það verð sem afurðastöðvar landsins greiða oftast kúabændum 1-2 mánuðum síðar.

 

Innan Evrópusambandsins stefnir nú í enn aukna eftirspurn eftir mjólk þar sem bæði pólskir og þýskir kúabændur hafa ekki náð að framleiða jafn mikið af mjólk og búist var við í upphafi ársins. Þessi staða hefur einnig haft áhrif á afurðastöðvaverð í þessum löndum og er útlit fyrir að afurðastöðvaverð í Suður-Þýskalandi fari jafnvel yfir 80 krónur á árinu/SS.