Beint í efni

Hækkun mjólkurverðs: hvenær og hversu mikið?

12.02.2008

Sú spurning brennur nú á kúabændum hvenær þeir fái leiðréttingu á mjólkuverði vegna gríðarlegra hækkana á tilkostnaði við framleiðsluna. Það er óvenjulegt og gerir stöðuna mjög alvarlega að nú hefur hvort tveggja hækkað óheyrilega, fjármagnskostnaður og almennur rekstrarkostnaður. Sérstaklega hefur kjarnfóður og áburður hækkað geigvænlega mikið. Þessi staða kemur illa við alla mjólkurframleiðsluna en sérstaklega skuldsettari kúabúin sem hafa verið að byggja sig upp til framtíðar og ekki fyrirsjáanlegt að þau séu rekstrahæf miðað við núverandi mjólkurverð. 
 

Stjórn Landssambands kúabænda leggur áherslu á eftirfarandi:
 
1. Fá þarf bráðabirgðauppgjör nokkurra kúabúa fyrir árið 2007 sem allra fyrst, helst um næstu mánaðamót. Upplýsingar um raunverulega stöðu eru mjög mikilvægar við þessar aðstæður.

2. Vaxtakostnaður í verðlagsgrundvelli kúabús verði miðaður við meðaltal gildandi kjörvaxta hjá Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi.

3. Beingreiðslur verði í verðlagsgrundvellinum reiknaðar sem krónur á framleiddan lítra og afurðastöðvaverðið hækkað sérstaklega sem nemur því hvað þær hækka minna en framleiðslukostnaðurinn.

4. Áburður verði reiknaður inn í grundvöllinn við framreikning 1. mars í stað 1. júní eins verið hefur.

5. Mjólkurverð verði hækkað 1. apríl 2008 eins og framreikningur 1. mars gefur tilefni til, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem fram koma í lið 2,3 og 4.

 

Að svo komnu er ógerlegt að svara því hversu mikið mjólkurverð þurfi að hækka á árinu 2008, og enn síður hægt að segja hversu mikið verðið muni hækka. Á tímabilinu 4. febrúar til kl. 10,55 þann 11. febrúar hefur gengisvísitalan hækkað um 3,2 %. Þá er gert ráð fyrir að kjarasamningar séu í þann veginn að nást en óljóst hvaða áhrif þeir muni hafa á launavísitölu.

                                                                     

11.2.2008     
                                    Þórólfur Sveinsson, form. Landssambands kúabænda