Hækkandi heimsmarkaðsverð á mjólkurafurðum
04.01.2011
Þrátt fyrir að heldur illa hafi árað í efnahagslífi heimsbyggðarinnar árið 2010, var heimsmarkaðsverð á mjólkurafurðum á borð við smjör og mjólkurduft í sögulegum hæðum. Smjörverð hækkaði allt árið, frá 3.600 $/tonn í febrúar upp í núverandi verð, 4.500 $/tonn. Þetta háa afurðaverð hefur leitt af sér hærra mjólkurverð til bænda og það til aukningar á framleiðslu í helstu mjólkurframleiðslulöndunum, sem kemur ekki á óvart. Spáð er áframhaldandi framleiðsluaukningu árið 2011. Á Nýja-Sjálandi er t.d. spáð að framleiðslan aukist um hvorki meira né minna en 10%. Það er aukning um ca. 1,7 milljarða lítra. Þetta kemur fram í nýju yfirliti bandaríska landbúnaðarráðuneytisins yfir stöðu og horfur á heimsmarkaði með mjólkurafurðir. Sjá má yfirlitið með því að
smella hér.
Þrátt fyrir spár um aukið framboð er útlitið bjart. Horfur eru á að aukning á tekjum fólks á lykilmörkuðum, í Asíu og Eyjaálfu, verði heldur meiri í ár en á sl. ári. Gefur það tilefni til að ætla að eftirspurn verði áfram frekar mikil. Þá eru birgðir af t.d. smjöri og undanrennudufti litlar, þannig að getan til að mæta áföllum í framleiðslunni er takmörkuð. Þannig eru smjörbirgðir í ESB í sögulegu lágmarki og 20% undir meðallagi síðasta áratugar í Bandaríkjunum.
Í þessum efnum, sem og mörgum öðrum, leikur Kína lykilhlutverk. Ráðuneytið spáir því að innflutningur Kínverja á mjólkurdufti verði allt að 400.000 tonn á nýhöfnu ári. Þessi gríðarlega eftirspurn mun án vafa þrýsta verðinu upp. Orsök hennar er að finna í aukinni velmegun þegna alþýðulýðveldisins, takmörkuðu framboði á innlendum mjólkurafurðum og skertri tiltrú neytenda á þeim í kjölfar melamín hneykslisins 2008.
Verðþróun á uppboðum hjá nýsjálenska mjólkurrisanum Fonterra gefur tilefni til að ætla að svona muni fara; verð á nýmjólkurdufti til afhendingar langt fram á þetta ár hefur verið á bilinu 3.000-3.600 $/tonn síðan í ágúst 2010. Sama gildir um verð á smjörolíu, verðið á henni hefur verið í kringum 5.000 $/tonn á sama tímabili. Það gefur tilefni til að ætla að smjörverð verði á svipuðu róli á næstu misserum.
Af framangreindu má ráða að verðþróun á mjólk sem framleidd er umfram greiðslumark og flutt er úr landi sem undanrennuduft og smjör, verði íslenskum kúabændum hagfelld á næstu mánuðum.