Beint í efni

Hægt að draga úr metangasmengnun kúa

28.07.2016

Með því að blanda efninu 3NOP út í kjarnfóður mjólkurkúa er hægt að draga úr metangasmengnun kúa um þriðjung. Þetta kemur fram í bandarísku rannsóknaverkefni sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science fyrr í mánuðinum. Í rannsókninni var efnið 3NOP (3-NiotroOxyPropanol) sett út í heilfóður mjólkurkúa og var blöndunarhlutfallið 60 mg á hvert kíló þurrefnis.

 

Holstein kúnum í tilrauninni var skipt upp í tvo hópa og átu þær að jafnaði 24-25 kíló þurrefnis á dag og mjólkuðu 32-33 kíló daglega. Enginn munur var á hópunum þegar litið var til fóðurnýtingar en mikill munur mældist á magni metangass sem þær skiluðu (ropuðu) frá sér. Þetta efni, 3NOP, virkar á vambarstarfsemina þannig að það hemur ákveðinn hvata (ensím) sem hefur áhrif á metangasmyndun. Framleiðsla á þessu nýja efni er enn á tilraunastigi og er því ekki komið í almenna sölu/SS.