Beint í efni

Guðrún Sigríður Tryggvadóttir er nýr formaður BÍ

04.03.2019

Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, bóndi í Svartárkoti í Bárðardal í S-Þingeyjarsýslu, tók formlega við sem formaður Bændasamtaka Íslands föstudaginn 1. mars. Hún tekur við af Sindra Sigurgeirssyni sem hefur brátt störf sem svæðisstjóri hjá Arion-banka á Vesturlandi. Guðrún var varaformaður Bændasamtakanna og settist fyrst í stjórn árið 2018. Næst verður kosið til stjórnar og stjórnarformanns á Búnaðarþingi árið 2020.

Guðrún er menntaður kennari en rekur sauðfjárbú í Svartárkoti með systur sinni og fjölskyldum þeirra. Þar er einnig rekið menningar- og fræðslusetur auk ferðaþjónustu í Kiðagili í sömu sveit. 

Í bráðskemmtilegu viðtali sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir, blaðamaður hjá Rúv, tók við Guðrúnu í síðustu viku sagði hún m.a. að þjóðin þyrfti að kynnast bændum betur. „Ef þið viljið koma í heimsókn og ræða málin þá bara er það um að gera, talið við bændur, vitið hvað þeir eru að gera. Við erum ótrúlega áhugaverð,“ sagði Guðrún í viðtalinu sem hlýða má á hér.

Guðrún er fyrsta konan til að gegna formennsku í heildarsamtökum bænda á Íslandi, allt frá því að þau fyrstu voru stofnuð undir nafninu „Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag“ árið 1837. Bændasamtök Íslands voru stofnuð í núverandi mynd árið 1995.

Á sama tíma og Guðrún S. Tryggvadóttir tekur við formannsembættinu kemur Guðrún Lárusdóttir, bóndi í Keldudal, ný inn í stjórn Bændasamtakanna.