Beint í efni

Grunur um H1N1 á íslensku svínabúi

26.10.2009

Grunur leikur á að svínaflensan svokallaða, H1N1, hafi stungið sér niður á svínabúi hér á landi. Vísindamenn á Keldum rannsaka nú hvort grunurinn eigi við rök að styðjast en ef niðurstaðan reynist jákvæð yrði það í fyrsta sinn hér á landi sem inflúensan greinist í svínum. Frá þessu var greint í Ríkisútvarpinu.

Þar segir jafnframt að samkvæmt upplýsingum frá Haraldi Briem sóttvarnalækni voru svínabændur í forgangshópi við bólusetningu við svínaflensunni. Reynist það rétt að flensan hafi borist í svín, er líklegast að svínið hafi smitast af starfsmanni á búinu sem hafi umgengist svínin.

Svínaflensa smitast ekki með svínakjöti og fólki stafar því engin hætta af neyslu þess. Á mbl.is er haft eftir Haraldi Briem: ,,Við leggjum hins vegar áherslu á að það er engin hætta á því að fólk veikist af svínaflensunni með því að borða svínakjöt. Það getur hins vegar smitast af henni ef það er í nágrenni við veikt svín, ef þau hnerra eða hósta. Svínin eru um margt lík mannfólkinu." Hann sagði jafnframt að svínin sjálf spjari sig yfirleitt nokkuð vel af flensunni og veikjast ekki illa.

Vakin er athygli á því að nánari upplýsingar um inflúensuna er hægt að nálgast á vefsíðunni influensa.is