Gríðarleg flutningsgeta mjólkur
26.10.2011
Stóra afurðafélagið Fonterra í Nýja-Sjálandi hefur nú fengið heimild yfirvalda til þess að auka flutningsgetu bíla sinna um 1 tonn eða úr 44 tonnum í 45 tonn í hverri ferð. Þetta kann að hljóma sem smámunir en fyrir þetta stórfyrirtæki þýðir það auka flutningsgetu á dag um 1,2 milljónir lítra! Daglega eru nefninlega fluttir á milli 50 og 70 milljón lítrar mjólkur í Nýja-Sjálandi með 450 mjólkurbílum Fonterra.
Ástæða þess að félagið sóttist eftir þessari heimild var að einstakt tíðarfar hefur verið í Nýja-Sjálandi og er búist við því að toppur mjólkurframleiðslunnar komi bæði fyrr en ætlað var og með meiri samþjöppun. Félagið hefur því fengið heimild yfirvalda í þrjá mánuði um að geta keyrt með aukinn öxulþunga. Eins og margoft hefur komið fram skiptir mjólkurframleiðsla efnahag á Nýja-Sjálandi afar miklu og yfirvöld því ákaflega viljug að gera sitt til þess að tryggja gott gengi framleiðslunnar/SS.