Greina gæði matvæla með nýrri tækni
19.08.2011
Sænska fyrirtækið UmBio hefur nú sett á markað afar áhugavert greiningartæki fyrir matvælaiðnað, en það er stafrænn skanni sem með sérstökum hugbúnaði greinir t.d. kjöt, fitu, sinar og bein í kjötsneið eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt. Kerfið, sem heitir UmBio Inspector er einskonar stafræn myndavél sem er sett ofan við framleiðslufæriband í t.d. osta- eða kjötvinnslu. Þegar viðkomandi matvara fer framhjá búnaðinum greinir hann í rauntíma yfirborðið og gefur upp nákvæmt hlutfall af efnainnihaldi s.s. hlutfalli af fitu, vatni, salti og próteinum.
Með réttum hugbúnaði er svo hægt að reikna út hvort heldur sem er kjöt/beinahlutfall í kjötstykki eða gæði á ostum. Það er einmitt sænska afurðastöðin Norrmejerier sem hefur tekið þessa tækni í notkun, fyrst matvælafyrirtækja. Norrmejerier munu nota búnaðinn til þess að staðla gæði ostavinnslunnar/SS.