Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Grein: Umhverfisvæn framþróun mjólkurframleiðslunnar

25.05.2021

Með framþróun í tækni, fóðurnýtingu og kynbótum hafa kúabændur landsins náð að auka framleiðslu mjólkur, en á undanförnum 30 árum hefur mjólkurkúm á Íslandi fækkað um 20% á meðan framleiðslan hefur aukist um 43%. Við þurfum því færri gripi til að standa undir meiri framleiðslu. Þar sem stærstur hluti kolefnislosunar í nautgriparækt kemur frá kúnum sjálfum, óháð því hvað þær framleiða mikla mjólk, hefur þessi þróun nú þegar haft töluverð lækkandi áhrif á kolefnisspor þess hluta framleiðslunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Margrétar Gísladóttur, framkvæmdastjóra LK, sem birtist í Fréttablaðinu 19. maí sl.

Í greininni er fjallað um hvernig öll framþróun í mjólkurframleiðslu og -iðnaði sé í raun umhverfisvæn. Sem dæmi hefur Mjólkursamsalan náð að draga töluvert úr umhverfisspori starfsemi sinnar undanfarin ár með umhverfisvænni umbúðum, betri nýtingu hráefnis, endurnýjun á tækjabúnaði, hreinni orku og betri nýtingu bifreiða. Sem dæmi hefur kolefnislosun vegna duftframleiðslu dregist saman um 95% á sama tíma og framleiðsla hefur aukist um 43%.

Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan:

Umhverfisvæn framþróun mjólkurframleiðslunnar

Oft er sagt að bændur séu vörslumenn landsins enda stór hluti þess í þeirra umsjón. Loftslagsmál hafa verið í forgangi hjá bændum líkt og öðrum undanfarin ár og ljóst er að þar hefur náðst mikill árangur á sama tíma og mikil tækifæri eru til að gera enn betur. Með aukinni áherslu á málaflokkinn eru hlutir hugsaðir upp á nýtt, fundnar eru nýjar leiðir til verðmætasköpunar og betri nýtingar á hráefnum og aðföngum. Segja má með sanni að öll framþróun í landbúnaði sé á sinn hátt umhverfisvæn.

Færri kýr en meiri mjólk

Með framþróun í tækni, fóðurnýtingu og kynbótum hafa kúabændur landsins náð að auka framleiðslu mjólkur, en á undanförnum 30 árum hefur mjólkurkúm á Íslandi fækkað um 20% á meðan framleiðslan hefur aukist um 43%. Búum hefur fækkað umtalsvert en á sama tíma sérhæfst og tæknivæðst.

Sem dæmi um hraða og mikla tækniþróun var fyrsti mjaltaþjónninn tekinn í notkun hér á landi árið 1999 og er enn að störfum nú 22 árum síðar. Síðan þá hafa fjölmargir bæst við og í árslok 2019 voru lausagöngufjós með mjaltaþjóni algengasta tegund fjósa hérlendis og hlutfall mjólkur sem kom frá mjaltaþjónum tæp 56% af heildarinnvigtuninni, sem er að öllum líkindum heimsmet. Aukin tæknivæðing hefur ekki einungis jákvæð áhrif á starfsumhverfi bænda heldur er framleiðsla hverrar kýr meiri í lausagöngufjósum en básafjósum og eykst enn frekar með mjaltaþjóni. Framleiðsla hverrar mjólkurkýr hefur aukist um rúm 50% á 30 árum og eykst með hverju ári. Við þurfum því færri gripi til að standa undir meiri framleiðslu. Þar sem stærstur hluti kolefnislosunar í nautgriparækt kemur frá kúnum sjálfum, óháð því hvað þær framleiða mikla mjólk, hefur þessi þróun nú þegar haft töluverð lækkandi áhrif á kolefnisspor þess hluta framleiðslunnar.

Lægra kolefnisspor við söfnun og vinnslu

Mjólkursamsalan er í eigu kúabænda um land allt og hefur það hlutverk að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta henni í mjólkurafurðir og koma út á markað. Hlutverk MS er því stórt á leið mjólkur frá bændum til neytenda og mikilvægt er að unnið sé að umhverfismálum á öllum stigum framleiðslunnar. Undanfarin ár hefur MS náð að draga töluvert úr umhverfisspori starfsemi sinnar með umhverfisvænni umbúðum, betri nýtingu hráefnis, endurnýjun á tækjabúnaði, hreinni orku og betri nýtingu bifreiða. Sem dæmi hefur kolefnislosun vegna duftframleiðslu dregist saman um 95% á sama tíma og framleiðsla hefur aukist um 43%.

Eitt stærsta skref sem íslenskur matvælaiðnaður hefur tekið í umhverfismálum undanfarin ár er svo verksmiðja Íslenskra mysu­afurða á Sauðárkróki. Þar er mysa sem fellur til við framleiðslu osta nýtt til vinnslu á hágæða prótein­dufti. Þar er nú framleitt prótein­duft úr um 50 milljón lítrum af mysu sem áður fóru til spillis. Síðar á árinu verður svo annar áfangi verksmiðjunnar tekinn í notkun en þar verður unnið etanól úr mjólkursykri sem einnig er unninn úr mysunni. Sóun hráefna í mjólkuriðnaði heyrir þar með sögunni til, en þegar framleiðsla etanóls verður farin af stað mun nýting hráefnisins verða fullkomin.

Kolefnishlutleysi árið 2040

Íslenskir kúabændur hafa sett sér það markmið að greinin verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að þá verði allar afurðir vottaðar kolefnishlutlausar. Við setjum markmiðið hátt og á síðasta ári var útbúin aðgerðaáætlun um loftslagsmál í nautgriparækt til að ná þeim. Við höfum aukið við fé til rannsóknar- og þróunarverkefna og þannig greitt götu margra aðgerða sem þarft er að ráðast í. Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður verður aðlagað að nautgriparækt á þessu ári og fyrstu kúabúin koma inn í haust, en verkefnið hefur skilað góðum árangri í sauðfjárrækt.

Á síðasta ári kom svo á markaðinn hérlendis nýtt bætiefni fyrir kýr sem dregur úr metanlosun og bætir nýtingu fóðurs hjá nautgripum, en metanlosun frá gripunum sjálfum er helmingur losunar frá greininni. Rannsóknir á þessu sviði eru víða í gangi og má ætla að í nánustu framtíð verði hægt að draga úr losun svo um munar með íblöndunarefnum í fóður. Vísindum á sviði loftslagsmála fleygir fram og stöðugt koma nýjar upplýsingar um umhverfisvænni og hagkvæmari framleiðsluaðferðir í landbúnaði. Það mun ekki standa á bændum að taka þar fullan þátt í samstarfi við stjórnvöld og munum við leggja okkur fram við að ná settum markmiðum um kolefnishlutleysi á þessum tíma.

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda