
Greiðslur spretthóps – Nautgripabændur
20.09.2022
Fyrstu greiðslur til nautgripabænda samkvæmt tillögum spretthóps sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, setti á laggirnar vegna alvarlegrar stöðu landbúnaðar voru greiddar út síðastliðinn föstudag, 16. september. Um var að ræða helming fjárheimildar af lið 2 b) í skýrslu spretthóps eða 82 milljónir króna sem greiddar voru út á alla UN gripi sem slátrað var á tímabilinu 1. janúar – 30. júní 2022. Hinn hluti fjárheimildarinnar verður greiddur út í tvennu lagi, 41 milljón króna í hvert skipti, fyrst með álagsgreiðslu í nóvember vegna allra UN gripa sem slátrað er frá 1. júní – 30. september 2022 og síðari í febrúar 2023 vegna allra UN gripa sem slátrað er frá 1. október – 31. desember 2022.
Á morgun, 21. september 2022 verða greiddar út fjárheimildir af lið 2 c) og 2 d) í skýrslu spretthóps eða 20% álagsgreiðslur á gripagreiðslur holdakúa, alls 36 milljónir og 12% álagsgreiðslur á gripagreiðslur mjólkurkúa, alls 199 milljónir króna. Um er að ræða eingreiðslu án uppgjörs.
Mánudaginn 3. október þurfa allir að hafa skilað inn umsókn um jarðræktarstyrki og landgreiðslur en í framhaldi af því verða fjármunir af 1 lið í skýrslu spretthóps greiddir út, alls 517 milljónir. Skiptast álagsgreiðslurnar á milli allra þeirra bænda sem stunda jarðrækt og hirða tún sín. Hvetjum við alla bændur til að skila um umsóknum sínum sem allra fyrst, þar sem umsóknarfrestur verður ekki framlengdur.
Tímaáætlun álagsgreiðslna nautgripabænda:
September 2022
16. september (lokið): 75% álag á nautakjötsframleiðslu, fyrsta álagsgreiðsla vegna framleiðslu janúar - júní 2022, 82 milljónir
21. september: 20% álag á gripagreiðslur holdakúa, 36 milljónir
21. september: 12 % álag á gripagreiðslur mjólkurkúa, 199 milljónir
Október 2022
65% álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur, 517 milljónir
Nóvember 2022
75% álag á nautakjötsframleiðslu, önnur álagsgreiðsla vegna framleiðslu júlí – september 2022, 41 milljón
Febrúar 2023
75% álag á nautakjötsframleiðslu, þriðja álagsgreiðsla vegna framleiðslu október – desember 2022, 41 milljón
Vekjum við athygli á því að öll ábyrgð og framkvæmd á greiðslum spretthóps liggur hjá Matvælaráðuneytinu.