Beint í efni

Greiðslumarksreglugerð staðfest – greiðslumarkið 155 milljónir lítra

22.07.2009

Ráðherra landbúnaðarmála hefur nú staðfest reglugerð um greiðslumark mjólkur á næsta verðlagsári, 1. september 2009-31. desember 2010. Greiðslumark mjólkur á því verðlagsári verður 155 milljónir lítra, sem jafngildir 116,25 milljónum lítra m.v. 12 mánuði. Greiðslumark yfirstandandi verðlagsárs (1.9.08-31.8.09) er 119 milljónir lítra. Hér er því um svolítinn samdrátt að ræða, þó minni en útlit var fyrir um tíma í vor að yrði. Skiptist greiðslumarkið í sömu hlutföllum milli greiðslumarkshafa og á yfirstandandi verðlagsári. Þannig fær bú sem hefur 200 þús. lítra greiðslumark á þessu ári, 260.504 lítra greiðslumark á því næsta.

Nokkur breyting verður einnig gerð á tilhögun c-greiðslna. Greiðslur í júlí og ágúst falla út, þar sem þeir mánuðir eru komnir inn á mitt verðlagsárið. Einnig lækkar hlutfall c-greiðslna í janúar og febrúar. Í staðinn verður hlutfall c-greiðslna í nóvember og desember 2010 aukið. Markmiðið með þessu er að jafna framleiðslu eftir mánuðum, svo sem best samræmi sé milli framleiðslu og sölu mjólkur. Þannig má lágmarka þörf iðnaðarins fyrir sveiflujöfnum með duftvinnslu.

 

Ráðstöfun á óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi skal vera sem hér segir:

a) Til kynbótaverkefna, þ.e. afurðaskýrsluhalds og mjólkursýnatöku úr einstökum kúm skal varið 58 milljónum kr.

b) Til jarðræktarverkefna, gras- og kornræktar, skal varið 82 milljónum.

c) Til rannsókna- og þróunarverkefna í nautgriparækt skal varið 20,8 milljónum kr.

 

Þá skal áréttað að framleiðendur geta einungis öðlast rétt til beingreiðslna fyrir mjólk sem framleidd er á því lögbýli sem greiðslumark fylgir, innan þess framleiðslutímabils sem reglugerð þessi nær yfir. Mjólk sem unnið er úr til sölu á sama lögbýli og framleiðsla fer fram telst til framleiðslu innan greiðslumarks.