Greiðslumarksreglugerð komin út – 119 milljónir lítra
11.07.2008
Þann 3. júlí sl. var gefin út af Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu reglugerð um greiðslumark í mjólk verðlagsárið 2008/9, sem hefst 1. september n.k. Reglugerðina er að finna hér. Hana má einnig finna í B-deild Stjórnartíðinda.
Ekki eru veigamiklar breytingar á gildandi reglugerð, utan að greiðslumarkið eykst um 2 milljónir lítra, eða 1,7%. Ekki verða breytingar á innbyrðis skiptingu beingreiðslna í A, B og C greiðslur. Á næsta verðlagsári kemur til greiðslu minna markaðstruflandi/óframleiðsltengdur stuðningur sem nemur 97 milljónum, að viðbættri verðtryggingu með VNV og grunnvísitölu 230 stig. Minnka beingreiðslur sem þeirri fjárhæð nemur. Að auki lækkar heildastuðningur við mjólkurframleiðsluna að raungildi um 1%, eins og kveðið er á um í mjólkursamningnum.
Skipting óframleiðslutengda stuðningsins er sem hér segir:
a) 34 milljónir skal greiða út á greiðslumark eins og það stendur 1. september 2008.
b) 25 milljónum skal varið til kynbótaverkefna.
c) 30 milljónum skal varið til gras- og grænfóðurræktar, samkvæmt reglum sem Bændasamtök Íslands setja.
d) 8 milljónum skal varið til rannsóknar- og þróunarverkefna í nautgriparækt.