Beint í efni

Greiðslumarkið fer í 111 milljónir

29.06.2005

Landbúnaðarráðherra hefur nú sett nýja reglugerð um greiðslumark næsta árs. Ákveðið hefur verið að greiðslumarkið verði 111 milljónir lítra, sem er aukning um 5 milljónir frá fyrra verðlagsári. Vegna hins nýja mjólkursamnings, sem tekur gildi 1. september nk., aukast beingreiðslur ríkissjóðs ekki við þessa breytingu og því munu tekjur pr. framleiddan lítra

innan greiðslumarks lækka. Kúabú fá því sem nemur rúmum 200 milljónum meira í heildartekjur á næsta verðlagsári (sem nemur afurðastöðvagreiðslu).

 

Nýr mjólkursamningur hefur töluverð áhrif 

Eins og áður hefur komið fram hefur nýji mjólkursamningurinn töluverð áhrif á heildartekjur kúabúa á næsta verðlagsári, en sem dæmi má nefna að kúabú með 140 þúsund lítra framleiðslurétt, fær í dag kr. 11.688.600,- í tekjur og fengi með óbreyttri framleiðslu um kr. 11.551.400,- (háð verðbólgu) fyrir þá framleiðslu á næsta verðlagsári. Vegna aukningar á greiðslumarkinu nú, verður framleiðsla umrædds bús 146.604 lítrar og heildartekjur verða því kr. 12.096.296,- sem er tekjuaukning fyrir þetta kúabú upp á kr. 407.696,-

 

Sem annað dæmi má nefna að ef sama kúabú nær ekki að framleiða þá viðbót sem nýja greiðslumarkið gerir ráð fyrir (6.604 lítra) og framleiðir áfram sína 140 þúsund lítra, þá lítur dæmið þannig út:

 

Fyrir 140 þúsund lítra í dag fær búið: kr. 11.688.600,-

Fyrir 140 þúsund lítra á næsta verðlagsári fær búið: kr. 11.551.400,-

Þar sem búið fær fullar A-greiðslur fyrir allt greiðslumarkið (146.604 lítra), greiðast til viðbótar kr. 132.792,-

Samtals fær kúabúið því á næsta verðlagsári kr. 11.684.192,-.