Beint í efni

Greiðslumark ársins 2023 verður 149 milljónir lítra

21.10.2022

Framkvæmdanefnd búvörusamninga samþykkti fyrr í vikunni að greiðslumark mjólkur á árinu 2023 verði 149 milljónir lítra. Um er að ræða 1,7% aukningu frá yfirstandandi ári, eða 2,5 milljónum lítra.

 

Ákvörðunin var tekin og tilkynnt fyrr en alla jafna til að gefa kúabændum meiri fyrirsjáanleika og svigrúm til að aðlaga sig að aukningunni. Hækkunin er tilkomin vegna aukinnar sölu mjólkurafurða en söluaukningin hefur verið meiri á árinu en síðustu ár, t.a.m. var greiðslumarkið 144 milljónir lítra árið 2017, 145 milljónir árin 2018-2021 og er 146,5 milljónir lítra fyrir árið í ár.

  

Bændum verður heimilt að setja fyrrgreint magn á innanlandsmarkað á næsta ári og fá opinbert lágmarksverð fyrir sem nemur tæpum 117 krónum á lítra.

  

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun gefa út reglugerð vegna greiðslumarksins síðar á árinu og mun hún taka gildi 1. janúar 2023.