Beint í efni

Grása á toppnum og Hraunháls afurðamesta búið

16.06.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir maí 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum. Alls komu 607 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 94%, en 603 bú voru með í mánuðinum þar á undan. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.294 eða 36,5 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í apríl sl. var meðalfjöldinn 37,0 árskýr.

 

Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að meðalafurðirnar lækka nokkuð eða úr 5.343 kg í apríl í 5.330 kg í maí. Próteinhlutfallið var 3,36 og fituhlutfallið 4,20 og framleiðsla verðmætaefna því 402,9 kg. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í maí í fyrra voru meðalafurðirnar þá 5.115 kg. Afurðirnar eru því að aukast frá því fyrir 12 mánuðum um 4,2% (jukust um 2,4% frá apríl 2010 – apríl 2011). Samtals reiknast nú 17 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er aukning um tvö bú frá því í apríl.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru sem fyrr á Hraunhálsi (26,7 árskýr) en þar var meðalnytin 7.842 kg með 4,94% fitu og 3,39% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 653 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru sem fyrr í Kirkjulæk 2 (41,8 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.732 kg með 4,09% fitu og 3,41% prótein. Magn verðmætaefnanna í Kirkjulæk 2 eru því að jafnaði 580 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (101,0 árskýr), en þar var meðalnytin 7.634 kg með 4,06% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 572 kg.

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er nú ný á toppnum en það er kýrin Grása (faðir Finnur 03029) frá Gunnbjarnarholti með 11.487 kg sl. 12 mánuði með 3,27% próteini og 3,85% fitu og verðmætaefnin því alls 818 kg. Fram kemur í yfirliti BÍ að 7 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg en engin fór yfir yfir 12 þúsund kg. /SS

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.