Beint í efni

Gott ár hjá TINE

01.05.2014

Árið 2013 var hagfellt fyrir hina norsku kúabændur sem eiga TINE en í fyrsta skipti í fimm ár hefur sala á drykkjarmjólk aukist í landinu eða alls um 0,15%. Félagið velti á árinu um 370 milljörðum íslenskra króna (20 milljörðum norskra króna) og nam hagnaður þess 17,6 milljörðum íslenskra króna. Alls jókst velta félagsins um 13,7 milljarða króna á árinu en hagnaður þess umfram hagnað ársins 2012 var óverulegur.

 

Skýringin á því afhverju hagnaðurinn jókst ekki í samræmi við aukna veltu felst í óvenju miklum útgjöldum á árinu en félagið tók í notkun nýjar afurðastöðvar í bæði Osló og á Jæren en báðar þessar stöðvar tóku mikið til sín.

 

Á aðalfundi félagsins ákváðu kúabændurnir að greiddar yrðu 4,8 krónur á hvern innveginn líter ársins í uppbótargreiðslu, sem er svipað hlutfall af hagnaði og greitt var til innleggjenda árið 2012. Að teknu tilliti til þessarar uppbótargreiðslu var meðal afurðastöðvaverðið árið 2013 4,91 norskar krónur á hvern líter hjá TINE eða 91,38 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag/SS.