Gott ár fyrir ástralska holdanautabændur
10.01.2013
Síðasta ár reyndist afar gott fyrir ástralska holdanautabændur enda endaði árið á því að nýtt með í útflutningi var sett. Alls voru flutt út 963.799 tonn á árinu og féll þar með met frá árinu 2008. Þrátt fyrir met hvað magn varðar, skilaði útflutningurinn minni verðmætum en ætla mætti. Skýringin felst í erfiðum kjörum á hinum alþjóðlega markaði sem ástralskir bændur selja á, aðallega til Japan og Kóreu.
Þó erfiðlega hafi gengið í fyrrgreindum löndum, gekk mun betur að selja nautakjötið í Kína og Bandaríkjunum og munu útflytjendur vafalítið halda áfram að vinna á þessum mörkuðum á þessu ári, enda kjötútflutningur frá Ástralíu í dag mjög háður mörkuðunum í Japan og Kóreui. Árið 2012 tóku þessi tvö lönd við 45% af öllu framleiddu nautakjöti frá Ástralíu og því hefur efnahagsástandið og kaupgeta fólks í þessum tveimur löndum allt of mikil og á tíðum sveiflukennd áhrif á afurðaverðið í Ástralíu/SS.