Gott ár að baki hjá TINE
09.03.2013
TINE, samvinnufélag norskra kúabænda, hefur nú birt ársreikning sinn vegna ársins 2012. Í skýringum með ársreikninginum segir m.a. að velta félagins hafi aukist úr 19,4 milljörðum norskra króna í 19,8 milljarða en hagnaðurinn fyrir skatta hafi hinsvegar dregist saman og farið úr 1,2 milljörðum norskra króna í 0,9 milljarða eða sem nemur 4,7% af heildarveltu.
Skýringin á minni afgangi ársins 2012 miðað við árið á undan felst í miklum fjárfestingum félagsins á árinu í nýrri afurðastöð við Jæren ásamt fleiri fjárfestingaverkefnum og líta forsvarsmenn félagsins björtum augum á framtíðina.
Á árinu gekk TINE vel að selja osta og margskonar vörur til matargerðar en á sama tíma varð þó samdráttur í neyslu drykkjarmjólkur. Þá vantaði verulega upp á að félagið gæti annað eftirspurn eftir mjólkurfitu á árinu, sem er nokkurt áhyggjuefni. Félagið býr þó afar vel og hefur sterka stöðu á sínum heimamarkaði, enda sinnir TINE markaðinum vel og er með fjölbreytt úrval mjólkurvara.
Félagið hækkaði á árinu afurðastöðvaverð sitt til bænda en árið 2011 fengu innleggjendur (með uppbótargreiðslu) 4,74 NOK fyrir lítrann (104,5 íkr) en árið 2012 hækkaði heildargreiðslan í 4,79 NOK fyrir lítrann (105,6 íkr). Þeir sem eru áhugasamir um rekstur TINE geta kynnt sér reksturinn og skoðað allar helstu rekstrartölur félagsins með því að fletta glærusýningu um reksturinn á þessari vefslóð hér: http://www.slideshare.net/tinegruppa/aarsresultat-tine-2012-slideshare /SS.