Beint í efni

Götóttur eins og þýskur ostur?

12.01.2011

Það kannast líklega allir við máltækið að vera „götóttur eins og svissneskur ostur“ en á það væntanlega rætur að rekja til hins fræga svissneska osts emmental, sem einmitt er óvenju holóttur ostur. Tilvera þessa heimsfræga osts er nú í hættu þar sem afurðastöðvar og stjórnvöld í Sviss eru komin í hár saman vegna markaðssetningarinnar á ostinum. Stjórnvöld hafa í mörg ár varið um 600 milljónum króna árlega til markaðsstarfsins, þar sem osturinn er eitt af kennileitum landsins.

 

Vegna efnahagsástandsins og samdráttar í sölu var settur opinber kvóti á framleiðsluna í maí árið 2009 og

stofnuð sérstök samtök framleiðenda á Emmental osti. Kvótinn átti að tryggja að verð á ostinum myndi haldast uppi, sem hann vissulega gerði en um leið urðu ostaframleiðendur að draga saman framleiðslu sína. Það hentaði auðvitað ekki öllum og því fór svo að margir virtu kvótann að vettugi og framleiddu utan kvótans, m.a. stærsti framleiðandi landsins. Það fyrirtæki hefur nú verið sektað um nærri 80 milljónir króna vegna umframframleiðslunnar. Fyrirtækið svaraði fyrir sig með því að draga sig út úr samtökunum og hafa fleiri fylgt í kjölfarið.

 

Vegna þessa hefur landbúnaðarráðuneytið nú tilkynnt áform um að hætta markaðsstuðninginum við ostana, þar sem framleiðendur vilja ekki vinna samkvæmt reglum stjórnvalda og þar er málið statt í dag. Sáttafundur hefur þó verið boðaður í þessum mánuði en takist ekki sættir, má búast við því að stórlega dragi úr auglýsingum og eins og áður segir fjari undan þessu fræga kennileiti landsins. Hver veit nema eitthvert annað land nái þá máltækinu, en tíminn einn á eftir að leiða það í ljós!