Beint í efni

Góður gangur hjá Nautastöð BÍ

26.02.2011

Nautastöð Bændasamtaka Íslands er á Hesti í Borgarfirði og hefur nú verið starfrækt þar í rúm tvö ár en hún var formlega vígð 10. febrúar árið 2009. Í stöðinni á Hesti eru 24 sæðisnautastíur, fjórar stíur fyrir uppeldið, sem geta tekið kálfa og svo einangunarstöð sem tekur 12 kálfa (og stundum fleiri). Árlega eru keyptir um 70 smákálfar að Nautastöð BÍ og úr hverjum árgangi koma 22 til 30 naut til sæðistöku, önnur eru felld vegna ýmissa atriða s.s. vegna þroskafrávika, þess að þau stökkvi ekki eða vegna þess að mæður þeirra falla í kynbótamati.

 
Í tilefni af tveggja ára afmæli stöðvarinnar var Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður

Nautastöðvarinnar, tekinn tali.

 

Að hans sögn er rekstur stöðvarinnar að færast í eðlilegt form en það hefur eðlilega tekið tíma að aðlagast nýjum aðstæðum. „Gripirnir fóðrast ágætlega og ég hef það á tilfinningunni að þeim líði mjög vel. Það hafa aðeins komið upp vandmál tengd því að lausagöngustíurnar eru stórar og við þurfum því að skipta hópum upp og það skapar óróleika í hjörðunum í einn eða tvo daga en þetta hefur í raun gengið afar vel“.
 

Í Nautastöð BÍ hafa í dag fleiri starfsmenn BÍ starfsaðstöðu en þeir sem starfa við nautin sjálf, en í skrifstofurými stöðvarinnar hafa nokkrir landsráðunautar aðstöðu. Aðspurður um hverju það hafi breytt fyrir starfsemina sagði Sveinbjörn: „Fleiri starfsmenn eru aðallega félagslega gott fyrir okkur og að sjálfsögðu auðveldar það aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf. Þá hefur Unnsteinn [innsk.: landsráðunautur í bútækni] verið betri en enginn í tæknimálum“.

 
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér nánar starfsemi Nautastöðvarinnar má benda á upplýsingar um hana á heimasíðu BÍ (www.bondi.is) sem og á Facebook síðu stöðvarinnar, en hana má finna með því að slá inn „Nautastöðin Hesti“ í leitarglugga Facebook.