Beint í efni

“Goðsögnin” á faraldsfæti

23.08.2017

Norska kynbótanautið Braut á 15 ára afmæli í dag, en Braut þessi er ekkert venjulegt kynbótanaut enda enn í fullu fjöri og notkun. Hann er það naut sem  hefur  reynst kynbótafyrirtækinu Geno lang best en þegar sala á sæði úr honum hófst á sínum tíma má eiginlega segja að það hafi orðið tímamót í kynbótasögu Noregs, enda hefur Braut verið afar eftirsóttur bæði innan sem utan Norges vegna alhliða góðra eiginleika dætra hans.

Braut hefur staðið sig einstaklega vel og skilað af sér hvorki meira né minna en 450 þúsund  sæðisstráum og þar af hafa nærri 400 þúsund strá verið seld utan Noregs. Braut er enn afar vinsæll í Hollandi og þar gengur hann einfaldlega undir nafninu „The Legend“ eða „Goðsögnin“ en þar í landi hafa verið seld 73 þúsund strá úr honum. Það er umtalsvert meiri notkun en hann fékk í Noregi á sínum tíma, en þar í landi má ekki nota hann lengur vegna hættu á skyldleikaræktun. Sæðissala úr Braut einum hefur skilað Geno um 280 milljónum íslenskra króna í veltu.

Í tilefni af stórafmælinu hefur kynbótafyrirtækið GENO ákveðið að fara með Braut í heiðursferð um Noreg í haust en sú hringferð hefst með því að sýna hann gestum og gangandi á landbúnaðarsýningunni Agrisja sem hefst á föstudaginn kemur/SS.