Beint í efni

Góð uppskera á olíurepju í Bretlandi

30.08.2010

Þrátt fyrir risjótta tíð í Bretlandi nú í sumar hefur vöxtur og þroski á olíurepju verið afar góður, þvert á það sem búast hefði mátt við. Skýringin er talin felast í afar miklum kuldum síðastliðinn vetur, en kuldinn hefur líklega minnkað sýkingar í ökrunum. Jafnframt er talið að kaldur veturinn hafi hægt á vorvextinum og þar með vorkali á plöntum og gert það að verkum að í raun lifði stærri hluti sáningar af en oft áður. Vissulega er afar mikill munur á milli stofna af olíurepjunni og koma ákveðnar sortir afar illa út, á meðan aðrar standa sig

einstaklega vel.

 

Samkvæmt tilraunaniðurstöðum HGCA, sem er landbúnaðar-þróunarstofnun Bretlands, er meðaluppskera á olíurepju í Englandi í ár 4,91 t/ha og sveiflast uppskeran eftir landsvæðum um 0,2 t/ha. Mest var uppskeran í norðurhluta Englands, þar sem bændur fengu 5,1 t/ha. Í Bretlandi eru uppskerutölur leiðréttar fyrir olíuinnihaldi fræsins og að teknu tilliti til olíuinnihalds er leiðrétt magn 5,4 t/ha í norðurhluta Englands, en það er 0,2 tonnum yfir meðaltali síðustu fjögurra ára.

 

Þeir stofnar sem koma best út í Bretlandi eru Sesame og DK Cabernet og auk þess er nýr stofn sem kallast W21 að standa sig einstaklega vel. Þá mæla breskir fræráðgjafar einnig með Rhino, Compass, Palace og Primus auk Excalibur. Hvort einhver framangreindra stofna henta hér á landi skal ósagt látið. Breskir bændur fagna í það minnsta yfir hinum nýju og sterku afbrigðum, enda eru margir breskir bændur að horfa til repjuolíuframleiðslu vegna hins háa olíuverðs um þessar mundir.