Beint í efni

Góð tengsl við kýrnar skiptir máli

08.08.2016

Það hvernig bændur umgangast kýrnar sýnar hefur veruleg áhrif á bæði afurðasemi þeirra og mjaltahraða en sem kunnugt er skiptir máli að vinna með kúnum við mjaltir svo þær selji vel og skili mjólkinni hratt frá sér. Nýleg frönsk rannsókn á 118 kúabúum tók sérstaklega á þessum samskiptum á milli manna og dýra en greint var frá niðurstöðum rannsóknarninnar í tímaritinu Journal of Dairy Science nú í júlí.

 

Rannsóknin var einkar áhugaverð og gekk út á að skoða hve öruggar kýrnar voru með sig við fóðurganginn og hve nálægt vísindafólkið gat komist að kúnum án þess að þær kvikuðu. Ef kýrnar leyfðu vísindafólkinu að klappa sér það einnig stig. Þessar mælingar voru svo settar í samhengi við ýmsar upplýsingar frá búunum auk viðtala við starfsfólk og sýndu niðurstöðurnar að þar sem kýrnar voru öruggastar með sig var einnig mest reynsla starfsfólks við búskap. Þá kom einnig í ljós að með auknum fjölda kúa á hvert starfsgildi í fjósi jókst óöryggi kúnna. Ennfremur var beint samhengi á milli þess að ef ábúandi var neikvæður eða starfsmaður ósáttur í starfi sínu, þá voru kýrnar óöruggari með sig.

 

Í rannsókninni voru ólíkar fjósgerðir, ólík mjaltatækni og ólík bústærð og kom í ljós að ekki var um teljandi áhrif að ræða frá framangreindum breytum. Það sem mestu skipti fyrir öryggi og þar með vellíðan kúnna var viðhorf þeirra sem unnu með kýrnar og það hvernig fólkið sinnti kúnum/SS.