Góð söluaukning í nautakjöti – lambið komið í 2. sæti
20.08.2007
Nýliðinn júlímánuður var líklega einn besti grillmánuður frá því að sögur hófust. Bera sölutölur á kjöti þess skýrt vitni, en kjötsala var 15,7% meiri í júlí í ár en í sama mánuði í fyrra. Framleiðsla á nautakjöti undanfarna 12 mánuði er 3.425 tonn og hefur aukist um 6,7% frá því á sama tímabili fyrir ári. Allt nautakjöt selst jafnharðan og birgðasöfnun er sama og engin, söluaukningin er því sú sama og aukning framleiðslunnar.
Innflutningur á nautakjöti var 157 tonn fyrstu 6 mánuði þessa árs, það er verulega mikið minna en á sama tíma í fyrra þegar innflutningurinn var 247 tonn.
Það sem eru þó mestu tíðindin þegar kjötsala undanfarinna 12 mánaða er skoðuð, er að lambakjöt sem undanfarið árþúsund eða svo hefur verið sú kjöttegund sem mest er neytt af hér á landi, er komið niður í 2. sæti. Alifuglakjöt trónir nú á toppnum, af því seldust 7.198 tonn síðustu 12 mánuði, en 7.160 tonn af lambakjöti.