
Góð sjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna er auðlegð sem þarf að verja með öllum ráðum
03.04.2013
Ríflega 120 manns mættu til hádegisfundar í Bændahöllinni um þá áhættu sem felst í því að flytja inn hrátt kjöt til landsins. Fyrirlestrar eru aðgengilegir hér á vefnum, sem pdf og hljóð og mynd.
Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, sagði í ávarpi við upphaf fundarins að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Bændasamtökin fjölluðu um áhættuna sem fælist í innflutningi á hráu kjöti. Samtökin hefðu rætt efnið í kringum ESB-aðildarferlið og um matvælalöggjöfina. Um mjög mikilvægt mál væri að ræða sem skipti miklu fyrir þjóðina.
Tveir þekktir vísindamenn héldu erindi, þeir Vilhjálmur Svansson dýralæknir á Keldum og Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans. Vilhjálmur spurði hvort smitsjúkdómastöðu íslensks búfjár væri ógnað af innflutningi á hráu kjöti en Karl fjallaði um innflutt matvæli og sýkingarhættu.
Vilhjálmur benti m.a. á að það séu 600-700 smitefni þekkt sem smita hesta, svín, nautgripi, sauðfé og geitur. Landfræðileg einangrun Íslands hefur verndað okkar sérstöku búfjárstofna í gegnum tíðina sem eru afar móttækilegir fyrir smiti. Það væru dæmi um að sjúkdómar hefðu borist til landsins og valdið miklum skaða. Nýjasta dæmið væri hrossapestin sem er fólki í fersku minni.
Vilhjálmur Svansson sagði sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna í mörgu tilliti einstaka og auðlegð sem ber að verja með öllum tiltækum ráðum. Hann benti á að einn þáttur í því að verja þá stöðu er að sem minnst sé flutt inn af hráum ómeðhöndluðum dýraafurðum sem mögulega gætu borið með sér smit.
Ef opnað verður fyrir frjálst flæði á landbúnaðarvörum þarf að efla viðbragðsgetu þeirra stofnana sem fást við rannsóknir á búfjársjúkdómum og matvælaeftirlit svo þær hafi burði til að takast á við þau vandamál sem hugsanlega kunna að koma upp í kjölfarið, sagði Vilhjálmur jafnframt.
Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru mikil ógn
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, sagði sýkingaráhættu bæði tengda innlendum og innfluttum afurðum en innflutt matvæli valda nú þegar hópsýkingum á Íslandi. Nefndi hann dæmi um sýkingar sem hefðu borist með erlendu sallati. Hann sagði líkurnar aukast við aukinn innflutning á fersku kjöti og tiltók sérstaklega ýmsar sýklalyfjaónæmar bakteríur sem væri ein mesta ógnin nú um stundir. Þá benti Karl á mikla sýklalyfjanotkun í erlendri búfjárrækt sem hefði afar neikvæð áhrif. Jafnframt benti Karl á mikilvægi þess að fylgjast vel með innfluttu dýrafóðri þar sem smitleiðir væru þekktar en hér á landi hefðu komið upp sýkingar með innflutningi á erlendu dýrafóðri.
Fyrirlestrar:
Vilhjálmur Svansson dýralæknir á Keldum. Er smitsjúkdómastöðu íslensks búfjár ógnað af innflutningi á hráu kjöti? Upptaka
Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans. Innflutt fersk matvæli og sýkingaráhætta. Upptaka
Vilhjálmur Svansson.
Karl G. Kristinsson.
Ljósmyndir: Hörður Kristjánsson / Bændablaðið