Beint í efni

Góð sala mjólkurvara skilar sér beint til kúabænda

11.02.2005

Góð sala á mjólkurvörum undanfarin misseri skilar sér nú beint til kúabænda, þar sem stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) hefur tekið ákvörðun um að mælast til þess að mjólkursamlögin kaupi prótein úr samanlagt allt að 4,5 milljónum lítra mjólkur umfram greiðslumark á yfirstandandi verðlagsári (2004/2005). Þetta þýðir í raun að kúabændur geta aukið veltu sína um u.þ.b. 150 milljónir króna

 á yfirstandandi verðlagsári og getur meðalvelta hvers bús þannig aukist um u.þ.b. 175 þúsund krónur.

 

Í tilkynningu frá framkvæmdastjóra SAM, leggur stjórn SAM til að einungis verði greitt fyrir próteinhluta mjólkurinnar, þ.e. 75% af afurðastöðvaverði, enda er fyrirséð að fitan verður flutt úr landi þar sem ekki er markaður fyrir hana innanlands.

 

Ástæður þessara tilmæla er góð sala mjólkurvara að undanförnu, en salan nemur um 109,5 millj. lítrum á próteingrunni sl. 12 mánuði. Áfram verður fylgst náið með söluþróun næstu mánuði og í byrjun maí nk., þegar sölutölur aprílmánaðar liggja fyrir, mun koma í ljós hvort söluþróunin gefi tilefni til þess að keypt verði enn meira prótein úr umframmjólk á verðlagsárinu.
 
Það mjólkurmagn sem afurðastöðvarnar vilja kaupa með þessum hætti af mjólkurframleiðendum svarar til um 4,25% af úthlutuðu 106 millj. ltr greiðslumarki verðlagsársins. Hver greiðslumarkshafi hefur því forgang að greiðslu fyrir umframmjólk sem samsvarar því hlutfalli af greiðslumarki hans, eða 4,25%.

 

Það sem kann að vera ónotað að loknu slíku uppgjöri, deilist á þá framleiðendur sem leggja inn umframmjólk og þá í hlutfalli við greiðslumark þeirra.

 

Greiðslur til hvers framleiðanda umframmjólkur sem fellur innan ofangreinds marks, 4,25% af rétti hvers um sig,  ættu að geta farið fram samhliða uppgjöri fyrir innvegna mjólk í hverjum mánuði. Endanlegt uppgjör og lokagreiðsla fyrir þá umframmjólk, sem óskað er eftir, getur ekki farið fram fyrr en verðlagsárið 2004/2005 er liðið og fullnaðaruppgjör liggur fyrir.