Góð sala í nýjum heyvinnuvélum hérlendis
29.07.2010
Fyrirtæki sem þjónusta m.a. kúabændur hafa ekki farið varhluta af efnahagsástandinu frekar en bændur sjálfir og ekki er langt síðan eitt af stærstu fyrirtækjunum í þjónustu við bændur, Vélaver hf, var líst gjaldþrota. Mörg þjónustufyrirtæki hafa þurft að hagræða verulega og gjörbreyta sínum rekstri, en nú er útlit fyrir að það sjáist til lands og að framundan sé betri tíð. Að sögn Finnboga Magnússonar framkvæmdastjóra eins af stærstu fyrirtækjunum á þessu sviði, fyrirtækisins Jötuns-Véla á Selfossi, hefur verið mjög mikið að gera undanfarið bæði í sölu tækja og varahluta.
Aðspurður um hvað helst sé að seljast þá sagði Finnbogi
mjög góða sölu hafa verið í nýjum heyvinnutækjum og hefur t.d. þurft að flytja inn viðbótar gáma með vélum til landsins. „Sala á dýrari tækjum hefur verið róleg en við finnum fyrir auknum áhuga á nýjum dráttarvélum og rúllusamstæðum þessa dagana og erum bjartsýnir á að aukin gangur færist í þann markað með haustinu. Sala á notuðum tækjum og vélum hefur einnig verið mjög góð og það vantar greinilega nokkurn fjölda notaðra dráttarvéla inn á markaðinn til að anna eftirspurn. Aðalástæðan fyrir litlu framboði af notuðum vélum í dag er að sala á nýjum vélum er mjög lítil og því kemur nánast ekkert af notuðum dráttarvélum í skiptum. Síðan hefur orðið alger sprenging hjá okkur í sölu varahluta bæði í okkar merki en ekki síður í vélar frá öðrum framleiðendum s.s. Case, New Holland, JCB, Fella og Welger. Til þess að takast á við þessi auknu verkefni höfum við bætt við okkur tveimur starfsmönnum frá því á síðasta ári og útlit er fyrir frekari fjölgun starfsmanna með haustinu til að anna þeim fjölmörgu verkefnum sem fyrirtækinu berast dag hvern“, sagði Finnbogi í viðtali við naut.is.
En hvert er útlitið með framtíðina? „Við erum alltaf bjartsýn og okkur finnst að smám saman sé róðurinn að léttast hjá mörgum okkar viðskiptavina þó vissulega sé víða erfitt. Það er samt ljóst í okkar huga að næstu ár munu gera miklar kröfur til bænda og fyrirtækja sem þjónusta landbúnaðinn, en við hlökkum til að takast á við þau verkefni og gera okkar besta í að hjálpa til við að leysa þau“, sagði Finnbogi. Ennfremur gat hann þess að margt spennandi sé í farvatninu og beri þar einna hæst dráttarvélina frá Valtra sem verið að prófa núna í Svíþjóð að keyra á hauggasi. Þá sé Jötunn-Vélar að kynna ýmsar minni nýjunar s.s. plastplötur til að klæða inn á veggi í gripahúsum, loftræstikerfi frá Bruvik, íblöndunarefni í korn í stað própíonsýru sem er mun ódýrara en sýran og síðan er mikill að gera við innkaup á tækjum og búnaði fyrir kornbændur.