Beint í efni

Góð sala á nautakjöti í mars

26.04.2010

Sala á nautakjöti gekk með miklum ágætum í marsmánuði. Sé miðað við mars í fyrra jókst salan um 12,1%, hér hafa páskar líklega einnig sitt að segja varðandi söluna eins og í tilfelli mjólkurafurðanna. Ef litið er til síðustu 12 mánaða hefur sala á nautakjöti aukist um 3,2% og er alls 3.795 tonn. Sala á alifuglakjöti hefur aukist um 1,1% á sama tímabili en samdráttur er í sölu annarra kjöttegunda, 11,9% í lambakjöti, 8,9% í svínakjöti og 8% í hrossakjöti.

Nú hefur nautakjötsverð til framleiðenda staðið í stað í rétt 2 ár. Á sama tíma hefur almennt verðlag í landinu hækkað um 25% – aðfangahækkanir hafa verið ennþá stórkostlegri. Afkoma af nautakjötsframleiðslunni hefur því rýrnað mjög mikið á þessu tímabili. Það hlýtur því að vera áleitin spurning fyrir bændur hver arðsemin er af þessari framleiðslu nú um stundir.