
Gleðilegan alþjóðlegan mjólkurdag!
01.06.2021
Í dag, þann 1. júní, er Alþjóðlegi mjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Þessum vitundarvakningadegi mjólkurframleiðslunnar var hrundið af stað árið 2001 fyrir tilstilli Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og því fögnum við 20 ára afmæli þessa framtaks í ár. Tilgangurinn er að kynna efnahagslegan, næringarlegan og félagslegan ávinning mjólkur og mjólkurafurða í matvælakerfum heimsins.
„Mjólkurframleiðsla styður við afkomu um eins milljarðs manna í heiminum en er stunduð með mjög fjölbreyttu sniði. Sem dæmi má nefna að stærsta kúabú heims sem staðsett er í Kína er með yfir 100.000 mjólkandi kýr en þrátt fyrir það er meðalstærð kúabúa í heiminum rétt skriðin yfir 2 kýr.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur, formanni LK, sem birtist á Vísir.is í dag.
Í greininni kemur einnig fram að mikil gróska hefur verið í vöruþróun og nýsköpun á íslenskum mjólkurvörum undanfarin ár. Þar nefnir hún m.a. Lava cheese ostasnakk, poppað skyr og ost frá Næra og fyrsta íslenska mjólkurlíkjörinn, Jöklu, sem kom nýlega á markað og við sögðum frá hér á naut.is fyrr í vikunni.
Við óskum öllum kúabændum og neytendum til hamingju með daginn og hvetjum ykkur til að skála í mjólk í tilefni dagsins!