Beint í efni

Gin- og klaufaveikifaraldur í Suður-Kóreu

07.01.2011

Yfirvöld í Suður-Kóreu reyna nú að hefta útbreiðslu gin- og klaufaveikinnar þar í landi með því að bólusetja gríðarlega mikinn fjölda gripa, en vart varð við veikina í landinu í lok nóvember. Yfirvöld hafa jafnframt fyrirskipað neyðarslátrun á 480 þúsund gripum, bæði sauðfé, svínum og nautgripum. Ástand þessara mála í Suður-Kóreu er það slæmt að landið hefur verið sett á hæsta áhættustig og hefur landbúnaðarráðuneytið staðfest að smitið breiðist tiltölulega hratt út í landinu.

 

Vegna þessa er rétt að árétta að smit getur borist á milli landa með bæði

fólki og varningi. Sjúkdómurinn er bráðsmitandi veirusjúkdómur og er landlægur í Asíu, Afríku og S-Ameríku, en eins og kunnugt er fundist í Evrópu öðru hverju.

 

Meðfylgjandi lýsingu á sjúkdóminum tók Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, saman þegar gin- og klaufaveikin gerði usla í Bretlandi fyrir 10 árum:

 

Smitleiðir
Veikin berst með ýmsu móti milli staða og landa, til dæmis með dýrum og dýraafurðum, sem ekki hafa fengið næga hitameðhöndlun, svo sem kjöti og mjólkurafurðum. Öll matvæli frá sýktum löndum eru varasöm. Veiran getur borist með fólki, einkum með skóm og hlífðarfötum, en fólk getur einnig borið veiruna í sér. Þeir, sem verið hafa á smituðum svæðum og andað veirunni að sér, geta borið hana í nefinu og dreift smiti í allt að 5 daga.

Vitað er að veiran hefur borist með fuglum og vindi milli bæja og jafnvel milli landa. Dýr sem sýkjast eru klaufdýr einkanlega: nautgripir, kindur, svín og geitur, villt klaufdýr (hreindýr) og einnig rottur. Sýkja má ýmis tilraunadýr. Hross sýkjast ekki. Gæludýr geta borið smit. Smituð dýr dreifa veirunni áður en þau veikjast sjálf. Fólk getur veikst en það er mjög sjaldgæft og er ekki alvarlegur sjúkdómur. Blandið ekki þessari veiki saman við barnasjúkdóm með sama enska nafni.

 

Einkenni
Byrjunareinkenni í nautgripum eru hár hiti, lystarleysi, deyfð og stirðleiki í hreyfingum. Blöðrur myndast í munni, á fótum, milli klaufa og við klaufhvarf og oft á spenum. Froðukenndir slefutaumar fara frá munni. Hjá svínum ber mest á deyfð og lystarleysi, krömpum og skyndilegri helti.

 
Blöðrur sjást oft á trýni. Hjá sauðfé og geitum ber mest á lystarleysi og helti. Einkenni hjá þeim geta verið mjög væg. Á því hafa ýmsir farið flatt og ekki tekið eftir einkennum í sauðfé. Blöðrur sjást ekki alltaf í munni kinda en finnast þá á bitgómi og stundum á tungu. Hjá hreindýrum er veikin enn vægari og blöðrur sjást varla við klaufir þeirra.

 

Með því að smella hér má lesa nánar um gin- og klaufaveikina á heimasíðu Mast.