Beint í efni

Gin- og klaufaveikifaraldur í Evrópu á ný?

21.01.2011

Eins og greint hefur verið frá hér á naut.is hefur frá 29. nóvemer sl. verið gin- og klaufaveikifaraldur í Suður-Kóreu og hafa yfirvöld þar nú látið fella yfir 10 milljón dýr. Sér ekki fyrir endann á faraldrinum þar því miður. Nú hafa einnig komið upp tvö tilfelli af veikinni í Búlgaríu. Fyrra tilfellið kom upp nú í byrjun janúar er sjúkdómurinn fannst í villisvínastofni í Burgas héraði. Í framhaldinu vaknaði grunsemd um að smitið væri komið í búfé á svæðinu, sem svo fékkst staðfest. Síðara tilfellið kom upp þann 17. janúar í suð-austurhluta landsins. Helstu sérfræðingar Evrópusambandsins á sviði smitsjúkdóma eru nú

í Búlgaríu til þess að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu þessa skæða sjúkdóms.

 

Vegna þessa er enn á ný rétt að árétta að smit getur borist á milli landa með bæði fólki og varningi. Sjúkdómurinn er bráðsmitandi veirusjúkdómur og er landlægur í Asíu, Afríku og S-Ameríku, en eins og kunnugt er fundist í Evrópu öðru hverju.

 

Með því að smella hér má lesa nánar um gin- og klaufaveikina á heimasíðu Mast.